Vönduð hreinsimjólk virðist kosta nær hand- og fótlegg þessa dagana. Að ekki sé minnst á ágætt hreinsivatn. Þess utan eru húðgerðir jafn fjölbreytilegar og konurnar eru margar og sitt hentar hverjum. Þannig hafa nær engar tvær konur sömu skoðun á sambærilegum vörum, það sem smellpassar einni húðtegund getur farið hræðilega í næstu manneskju og svo framvegis. Að velja réttu hreinsimjólkina, detta niður á hæfilega milt andlitsvatn að ekki sé talað um að ramba af slysni á nærandi næturkrem án þess að stefna fjárhag heimilisins í voða á sömu stundu er því ansi snúið á tíðum.
Yndisleg, nærandi og hlægilega ódýr hráefni leynast í flestum eldhússkápum
Ekki öll snyrtiráð kosta þó formúu og stundum er lausnin alveg hlægilega einföld. Eldhússkáparnir eru þannig sneisafullir af guðdómlegum hráefnum sem sum hver eru jafn freistandi til útvortis notkunar og matreiðslu.
Rokdýrri hreinsimjólk má hæglega skipta út fyrir lífræn hráefni
Tori nokkur Tefler, sem ritar af og til pistla um snyrtivörur og umhirðu hörundsins notar þannig lífræna ólífuolíu til að hreinsa andlitsfarðann af á augabragði. Ég hef ekki enn lagt í formúluna, enda nýkomin heim úr löngu ferðalagi þar sem ég grét hljóðlát við búðarkassann, rétti þögul fram greiðslukortið og festi kaup á ægilega fínu rakakremi fyrir andvirði stúdíóíbúðar í vesturbænum. Eða. Næstum því.
Lífræn jómfrúarolía getur gert kraftaverk fyrir andlitið
Tori leggur reyndar ekki til að nokkur kona maki hrárri ólífuolíu á vel farðað andlitið, heldur er dálítil serímónía að baki ferlinu. En hér fer formúla stúlkunnar og þætti mér gaman að heyra frá ykkur, lesendum, ef einhver ykkar ákveður að prófa:
Skrúfið frá heita vatninu inni á baði og látið renna um stund úr krananum þar til gufan fer að stíga upp.
Vætið gamlan þvottapoka upp úr sjóðheitu vatninu.
Greiðið því næst hárið vandlega frá andlitinu og setjið í hnút.
Hellið ágætu magni af lífrænni jómfrúar-ólívuolíu í annan lófann.
Berið nú olíuna vel yfir allt andlitið og nuddið vel inn í hörundið. Farðinn byrjar samstundis að renna til; tryggið að olían sé borin jafnt á andlitið – augnlok, augnbrúnir, varir – olíuna á að bera í jöfnum hlutföllin á allt andlitið.
Rennbleytið þvottapokann í eins heitu vatni og hörundið þolir, strjúkið varlega yfir andlitið og fjarlægið farðann. Ef þörf er á, bleytið þá þvottapokann aftur og endurtakið ferlið þar til öll ummerki um farða eru horfin. Þegar allur farðinn hefur verið fjarlægður af andlitinu – skolið þá klútinn og vindið varlega úr honum og leggið þvottapokann á tandurhreint og silkimjúkt andlitið – og leyfið að liggj aá andlitinu í nokkrar sekúndur.
Útkomuna segir Tori undursamlega, andlitshörundið verði silkimjúkt og endurnært – tandurhreint og aðferðin er óneitanlega ódýrari og um leið náttúrulegri en margir aðrir valkostir á markaðinum sem finna má á markaðinum í dag.
Freistandi í mesta skammdeginu, ekki satt?