Bróðir stórsöngkonunnar Nicki Minaj var ákærður á nú fimmtudag fyrir að hafa ráðist á og nauðgað 12 ára gömlu barni. Engar nánari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu aðrar en að ætluð kynferðisárás hafi verið af alvarlegum toga og að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir Jelani Maraj, sem er 37 ára gamall.
Jelani var gert að sæta gæsluvarðhaldi í Nassau héraðsfangelsinu í East Medow á Long Island, en var látinn laus gegn 100.000 Bandaríkjadala tryggingu samkvæmt því er kemur fram í fjölmiðlum vestanhafs.
Saksóknari og lögregluyfirvöld hafa neitað að gefa upp nokkuð um málsatvik og því enn margt á huldu um málavöxtu, en Jelani gekk í hjónaband með Jacqueline Robinson, unnustu sinni í ágúst á þessu ári og bar Nicki sjálf straum af öllum kostnaði sem hlaust af brúðkaupinu sjálfu og reiddi fram því sem nemur 4 milljónum íslenskum króna til að taka á móti ríflega 200 gestum.
Þegar athöfnin var haldin í ágúst, deildi Nicki ljósmynd af þeim systkinum á Instagram og sagðist við það tækifæri reiðubúin að ganga á heimsenda fyrir bróður sinn.
“I would cross the ocean for u” sagði Nicki meðal annars við umrætt tækifæri og sagðist elska bróður sinn meira en allt annað í lífinu.
Ég trúi því varla hvað ég grét mikið í brúðkaupinu og meðan hann steig fyrsta dansinn við eiginkonu sína. Guð blessi hann og þetta hjónaband. Kvöldið í kvöld er eitt það fallegasta kvöld sem ég hef upplifað á ævi minni. Ég myndi gera allt sem í mínu valdi stendur til að sjá bróður minn brosa.
Enn er að bíða þess að Nicki gefi út yfirlýsingu vegna handtöku bróður hennar, en eitt er þó víst að aðventutíminn verður þungur í lífi fjölskyldunnar og því augljóst að ríka og fræga fólkið glímir líka við erfiðleika.