PopUp Verzlun heldur upp á hátíðarnar með veglegum hönnunar- og listamarkaði í porti Hafnarhússins laugardaginn 5. desember frá 11:00 til 17:00. Í ár verður markaðurinn með öðru sniði, fjölbreyttur hópur tekur þátt en boðið var listamönnum, vinnustofum og vefverslunum sem leggja áherslur á hönnunarvörur, þátttöku í fyrsta skiptið í ár, ásamt kokki og tónlistarfólki ýmiskonar.
Hönnuðurnir og listamennirnir sem taka þátt í jólamarkaði PopUp Verzlunar í ár eru eins ólíkir og þeir eru margir og sýna flóru af ferskum, nýjum og áhugaverðum vörum og listaverkum. Af þeim 130 umsóknum sem bárust var vandað mjög við val þáttakenda, en þeir eru 38 talsins og hafa þeir aldrei verið fleiri. Það verða fjölbreytt tilboð og góð verð í boði fyrir jólapakkann.
Líf og fjör verður í Hafnarhúsinu meðan á markaðnum stendur en þar verður nýjasta viðbót PopUp Verzlunar POPUP ELDHÚSIÐ sett upp. Vegan kokkurinn Linnea Hellström er gestakokkur að þessu sinni ásamt kærasta sínum Krumma Björgvinssyni, stúlkur úr hljómsveitinni Kælan Mikla munu standa vaktina með þeim. Matseðillinn verður jóla órólegur og spennandi og verður hægt að ylja sér um hjartaræturnar með Popumpkim graskers og sætkartöflusúpu, Focchristmas samlokum, sætindum og ólgandi eplasíder. PopUp eldhúsið verður ævintýraupplifun og bragðlaukaferðalag fyrir alla sælkera þar sem fjölskyldur og vinir geta tyllt sér eftir kaupin undir jólalaga lista Krumma Björgvinssonar.
Tónlistaratriði verða með ríkjandi jólaanda en meðal annars verða söngatriði og sérstakt útgáfuhóf á bókinni og söngleiknum Björt í Sumarhúsi, þar sem Þórarinn Eldjárn og Elín Gunnlaugsdóttir mæta og árita bækur og Valgerður Guðnadóttir, Jón Svavar Jósefsson og Una Ragnarsdóttir munu syngja atriði úr óperu söngleiknum. Unnur Sara Eldjárn tekur lög af nýrri plötu sinni og Kvennakór Kópavogs syngja jólalög.
Nýjar vörur, jólaglaðningar, afslættir og ýmis tilboð verða í boði milliliðalaust beint til neytenda að venju. Þetta er frábært tækifæri fyrir fagurkera á öllum aldri að kynna sér og kaupa íslenska hönnun og myndlist á sérkjörum. Á markaðnum verða bæði þekktir og óþekktir hönnuðir og listamenn sem eru að koma fram á sjónarsviðið.
Listamenn sem taka þátt eru; Leynibúðin, Erla Gísla, Puzzled by Iceland, Scent of Iceland, Royal Donut, MYNKA, Tíra, Náttuglur, Harlem, Amikat, Töfrahurð, llDEM, Geislar, Urta, Guggzý, DayNew, FRIDA, Pastelpaper, Meiður, MEMO, Maja Stína, Tiny Trésor, Óskabönd, Tindar, Solids, MARGINALIA, Dauða Gallerý, GlingGling, SkinBoss, Himalaya Magic, Heiða Eiríksdóttir, Laufey Jónsdóttir, Vagg og Velta, Sigga Magga og Postulina.
Jólamarkaður PopUp Verzlunar í ár verður stútfullur af fallegum lífstílsvörum, einstökum listaverkum, kræsingum og ljúfri tónlist. Komdu og upplifðu með okkur!
PopUp Verzlun var stofnuð 2009 af fjórum fatahönnuðum. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir hönnuði og listamenn að koma sínum vörum á framfæri og hefur PopUp Verzlun staðið fyrir fjölda hönnunarmarkaða. Í ár verður vöru úrvalið fjölbreyttara en list, matar og lífstílsvörur bætast í flóruna Þetta verður í sjötta skiptið sem hönnunarmarkaður er settur upp á aðventunni.
Sjá má viðburð á Facebook
PopUp Verzlun á Facebook
PopUp Verzlun á Instagram