KVENNABLAÐIÐ

Húsráð: Og nú eru það eplin!

Nú er ég búin að skrifa um undur bananahýða og dýrð sítrónanna, nú er komið að enn einu töfraefni náttúrunnar. Eplaediki! Ég gæti verið með heila ritseríu um eplaedik. Hægt er að nota það í húsþrif, sem náttúrulyf við ýmsum kvillum og svo er hægt að nota eplaedikið við hinu og þessu útvortis.

Alls kyns uppskriftir er hægt að finna á netinu og ég ætla að einfalda málið fyrir ykkur og koma með nokkrar af þeim allra skemmtilegustu og einföldustu sem ég hef dottið niður á hingað til.

Það verður samt að hafa í huga, að kaupa ekki hvaða eplaedik sem er. Það er hægt að fá fallega glæra, tæra edikið hvar sem er, en það er ekki það sem við viljum hér. Við viljum lífræna, grugguga, ósíaða edikið sem botnfellur í flöskunni! En það þarf líka að muna að hrista upp í edikinu áður enn það er notað, því undraefnin sem við erum að sækjast eftir eru einmitt gruggið sem við sjáum synda um í flöskunni. Ýmis verulega gagnleg ensími, pektín, bakteríur og snefilefni eru efnin sem búa til skýið og er nákvæmlega það sem gerir eplaedik svona stórkostlegt.

Flestir vita að eplaedik er ósköp hollt og hjálpar manni að losna við bjúg og aukakíló en það gerir töluvert meira enn það!

Eplaedik inniheldur öflugar sýrur sem hjálpa til við að fjarlægja dauðar húðfrumur og afhjúpa þar með nýja og ferska húð. Dýru auglýsingakremin eru með örlítið magn af þessum sýrum en eplaedik er með margfallt magn af þeim og sprelllifandi og splunkunýjum í þokkabót.

Eplaedik gerir kraftaverk á bólum og filapenslum því þegar eplaedik er búið til, myndast ákveðnar sýrur sem gera edikið bakteríudrepandi, sveppa- og viruseyðandi sem er auðvitað það sem aðstoðar við að laga húðvandamál sem þessi. Það hreinsar svitaholur og gerir húðinni kleyft að anda, hreinsar burtu afgangsolíur og jafnar út ph stig húðarinnar þannig að hún verður hvorki of feit né of þurr.

En eplaedik er mjög sterkt efni og það má alls ekki nota það óþynnt þegar þú ert að bera það á allt andlitið. Það er mjög sýrt efni og getur eyðilagt húðina. Það þarf að þynna það mikið með vatni áður enn það er borið á.

Þú getur búið til þitt eigið hreinsivatn með því að blanda einn hluta ediki á móti tveimur af vatni og jafnvel verið svolítið ævintýragjörn og sett piparmyntu, lavender eða eitthvað annað ilmandi gott út í til að fá betri angan. Einnig geturðu skorið niður uppáhaldsjurtina þína, sett hana í pott með vatni, soðið í ca 30 mínútur og notað seyðið í stað vatnsins í blönduna.

Það er mælt með því að í fyrsta skipti sem edikið er notað á húðina, þá er betra að setja eingöngu á lítinn part og skola með vatni eftir um það bil 5 mínútur til að athuga hvort húðin sýni einhver ofnæmisviðbrögð eða þoli ekki edikið. Ef allt er í lagi þá er ekki nauðsynlegt að skola það í burtu næst.

Það er einnig mælt með því að eplaedikið sé sett á húðina að kvöldi til og leyfa því að ganga inn í húðina þar sem sýran í edikinu geti gert hörundið viðkvæmt fyrir sólarljósi ef það er sett á að morgni.

Og til að fullkomna nýju húðmeðferðina þína þá berðu kókosolíu eða jojobaolíu yfir húðina og þú munt geisla.

En eplaedik er ekki eingöngu frábært á húðina því þú getur notað það í hárið líka.

Sjampó og sápur geta oft eyðilagt náttúrulegan olíubúskap líkamans og þá kemur  edikið til bjargar því það jafnar sýrustig líkama og hárs.

Það fjarlægir afgangsefni af hversdagsmenguninni og sápum, virkar sem flækjubani og lokar yfirborði hársins þannig að ljósið endurkastast betur af því og árangurinn er skínandi fagurt hár. Það hjálpar til við slitna enda og þar sem eplaedikið er bakteríu og sveppa eyðandi, þá hjálpar það einnig til við að losna við flösu, þurra húð og kláða í hársverðinum. Í einhverjum tilfellum getur edikið örvað hárvöxt á skallablettum þar sem einhvers konar bakteríusýking hefur stíflað hársekkina og þurrkað hársverðin sem olli hármissinum. Það styrkir einnig ræturnar þannig að ótímabær hármissir gæti jafnvel verið úr sögunni!

Blandaðu jöfn hlutföll vatns og ediks og settu í hárið eftir þvott og nuddaðu vel inn í hársvörðinn. Bíddu í fáeinar mínútur og skolaðu síðan vel. Ef þú átt spreybrúsa er það enn betra! Og ekki nokkur ástæða til að notast við hárnæringu! Búðu til seyði úr lavender, jasmín eða hverju sem nef þitt samþykkir og notaðu í vatnshlutfallið. Annars er ekki nokkur ástæða til að óttast óþefinn af edikinu því um leið og húð þín og hár þornar, þá er lyktin gufuð upp.

Ef þú ferð stundum í bað þá er tilvalið að setja nokkrar teskeiðar af ediki út í baðvatnið og húð þín verður mýkri enn nokkurn tímann áður.

Eplaedik er alveg skínandi gott meðal við alls kyns kvillum og enn betra ef þú notar hrá hunang með því. Þetta dúó er frábært við verkjum í liðamótum, bólgum, meltingarvandamálum og auðvitað hálsbólgu. Sérstaklega ef þess er neytt á fastandi maga að morgni.

Gott við brjóstsviða og bakflæði, og hjálpar til með hægðatregðuna og jafnvel þyngdarstjórnunina. Dregur úr kólestrólmagni og lækkar blóðþrýsting, minnkar bólgur í líkamanum og eykur orku. Útlit þitt verður ferskara og unglegra vegna betri húðheilsu og dúóið er sérstaklega árangursríkt við andremmu.

Ástæða þess að þetta virkar svona vel saman er vegna þess að þótt bæði hunangið og edikið séu með hátt sýrugildi, þá breytist það við inntöku og verða basísk. En margir sérfræðingar telja að þegar líkami okkar verður veikur eða óheilbrigður, þá hækki sýrustigið upp úr öllu valdi og þá er ekkert betra en þetta náttúrulega kombó til að hækka ph gildið í líkamanum, sem á að vera öllu jöfnu örlítið basískt, á milli 7.0 og 7.4.

Eplaediksblandan:

1 teskeið hunang

1 teskeið eplaedik (ef þú þolir bragðið máttu auka þetta í 1 matskeið)

1 glas vatn (heitt eða kalt)

Það gæti tekið smátíma að venjast bragðinu en um leið og þú finnur áhrif þessa á líkamann þá mun það ekki skipta þig nokkru máli.

Annað sem edikið okkar getur gert :

Gott við vöðvakrampa:

Ef næturnar eru þér erfiðar vegna sinadrátts og krampa, taktu þá eina matskeið af ediki með hunangsslettu rétt áður enn þú ferð að sofa.

Sveppaeyðandi:

Hvort sem þú ert að berjast við sveppavöxt á fæti eða húðsvepp þá gæti ein matskeið af ediki út í glas af vatni, fyrir hverja máltíð, bjargað málunum. Í fyrstu gæti virst sem einkennin versni en svo deyr sveppurinn.

Hvíttar tennur:

Edikið hjálpar til við að fjarlægja bletti af tönnunum ogg þær verða hvítar á ný. Nuddaðu ediki á þær og hreinsaðu mjög vel eftir á með vatni, en alls ekki gera þetta oftar enn 1 sinni í viku þar sem sýrurnar geta vel skemmt glerunginn.

Heimilisþrifin:

Blandaðu til helminga vatn og edik í spreybrúsa og notaðu á örbylgjuofninn, vaskinn og önnur yfirborð bæði í eldhúsinu og baðherberginu og jafnvel spegillinn hefur gott af edikbaði.

Óblandað edik er gott á erfiðari bletti og síðan geturðu hellt því í klósettið og leyft því að sitja þar yfir nóttina. Það er jafnvel hægt að nota það í stað uppþvottavéladufts, hálfur bolli edik á móti heilum af vatni.

Stíflueyðir:

Helltu ¼ bolla af matarsóda í niðurfallið og síðan ½ af ediki. Þegar frissið er hætt þá geturðu skolað með vatni. Og til að lækna sturtuhausinn af stíflum, leggurðu hann í bleyti í ediki í 12 tíma. Ef þú nærð hausnum ekki niður geturðu sett edik í plastpoka og utan um sturtuhausinn og teygju til að halda öllu í skorðum.

Flóafæla:

Ef gæludýrið þitt er með flær er gott að setja til jafns vatn og edik í spreybrúsa og spreyja vel yfir allan feldinn einu sinni á dag i ca viku og þá ættu flærnar að vera flúnar.

Ef þú ert svolítið listræn og skapandi þá er ekki mikið vandamál að útbúa sitt eigið eplaedik en hér er að finna nokkrar uppskriftir:

Heimatilbúið eplaedik

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!