Alveg síðan ég byrjaði að kyrja og fara á búddistafundi fyrir 15 árum, hef ég verið mjög forvitin hvernig kyrjunin virkar, vísindalega séð. Hef verið forvitin vegna þess að hún virkar en ég vissi bara ekki hvers vegna hún virkaði. Hljóðbylgjur, heilabylgjur, rafbylgjur og orkustreymi eru efni sem hafa alla tíð heillað mig og ég hef lagt mig í líma við að viða að mér upplýsingum, lesa mér til og gera allskonar tilraunir á sjálfri mér með mismunandi árangri.
Þegar ég hef verið að lesa mér til í búddískum fræðum, hefur verið rauður þráður í gegnum allt. Í öllum leiðsögnum, reynslusögum og fræðslu frá tugum vitra manna og kvenna, hefur þessi þráður verið um þakklæti. Að finna þakklæti fyrir öllu mögulegu og ómögulegu í hjarta sér, til að koma í gang einhverju oft á tíðum, óskilgreindri hringrás eða keðjuverkun. Að kyrja með þakklæti í huga. Allt voða loðið eitthvað.
En hvers vegna þakklæti af öllum tilfinningum? Af hverju ekki ást? Eða manngæska og kærleik? Eða eitthvað allt annað?
Þegar maður finnur sjálfur hvernig þessi tilfinning getur rifið mann upp úr skít og drullu, komið manni upp úr þunglydi eða kvíða, og jafnvel breytt einhverju í kringum mann, er ekki um annað að velja fyrir svona forvitna manneskju en að kanna málið.
Hvað er það sem gerist? Er það raunverulegt? Einhver lyfleysuáhrif? Múgsefjun? Eða er þetta bara í hausnum á skrítnu fólki sem er staðráðið í að vera hippar forever?
Flestir hafa heyrt klisjurnar að þakklátt fólk sé hamingjusamara, heilbrigðara og bara almennt fullnægðara í lífi sínu og jarí jarí jara…
En hér kemur tvistið… þetta eru bara aukaverkanir af djúpu og raunverulegu þakklæti sem býr í hjartanu!
Það sem gerist í líkamanum þegar kveikt er á þessarri tilfinningu er alveg ótrúlegt, fallegt og eitthvað sem mér datt ekki til hugar að gæti gerst, þegar ég byrjaði að grafast fyrir um þetta efni.
Þakklæti er nefnilega ekki bara hugarástand og eitthvað sem við nefnum tilfinningu og þökkum fyrir okkur með bros á vör, heldur raunverulegt, líf- og eðlisfræðilegt ástand í líkamanum.
Það sem gerist við raunverulegt, djúpt þakklæti er að hjartað, þessi fallegi ljóðræni vöðvi sem hefur svo oft verið ort um í gegnum aldirnar og árþúsundin, skapar rafsegulsvið sem nær allt að 1,5 meter í radíus út fyrir líkamann. Einnig er raforkusvið hjartans um 60 sinnum sterkara enn raforkusvið heilans!
Þetta rafsegulsvið er eitthvað sem aðrir, innan radíuss, finna fyrir og vísindalegar rannsóknir hafa jafnvel sýnt að það er hægt að greina það í þeim.
Ég sá á einum stað talað um „þakklæti á sterum”, og ég er að hugsa um að nýta mér þá skilgreiningu því hún lýsir þessu svo vel. Maður er ekki lengur að hugsa um þakklætið heldur virkja það með einföldum æfingum sem, með tíð og tíma, við þurfum ekki lengur á að halda til að plögga hjartanu í samband.
Tíðnisvið hjartans verður ekki eingöngu stöðugara og jafnara, heldur gerir þakklæti það að verkum að taktur hjartans breytist mun auðveldar og fljótar en þegar um aðrar jákvæðar tilfinningar eru að ræða.
Þessi ákveðna tíðni hefur áhrif á hjörtu og heila annarra í nágrenninu og það er einmitt það fólk og hefur hvað jafnasta tíðni, sem aðrir samstilla sig við. Og það er meira enn líklegt að þakklátt hjarta geti breytt tilfinningaástandi annars fólks nákvæmlega vegna þessa.
Hugsið ykkur bara hvað við sem litlar manneskjur, getum haft alveg stórkostleg áhrif á líf annars fólks og þar af leiðandi breytt einhverju í heiminum, bara með þakklæti?!
En æfingarnar er ég sjálf búin að prófa og þetta er ekkert bull ef maður leggur sig fram og vill geta þetta. Þær eru nú ekki erfiðar og þær er hægt að gera hvar sem er, hvenær sem er, án þess að nokkur viti.
Ein auðveldasta æfingin er sú sem allir geta samsamað sig við. En þar áttu að ímynda þér að þú sért farin/n yfir móðuna miklu og fáir aðeins eitt tækifæri til að koma aftur í gamla lífið þitt í einn dag, án þess að nokkur viti um þennan „Groundhog dag” þinn.
Það er ekki nóg að hugsa bara æfinguna heldur þarf maður að sökkva sér í tilfinninguna sem við vitum að við myndum finna fyrir. Þetta eru allir litlu hversdagslegu hlutirnir sem við látum fara framhjá okkur dags daglega, en vitum samt að þetta eru þeir litlu hlutir sem við munum sakna.
Hér eru nokkrar uppástungur til að koma þér í gang og ég hvet þig til að finna þína eigin hversdagslegu hluti til að bæta við. Ekki er ómögulegt að þú munir finna fyrir sorg eða depurð, en láttu þakklætið fyrir þessa hluti, hafa yfirhöndina:
- Það að strjúka örlétt yfir andlitið á ástinni sinni og finna þakklætið streyma um sig, er maður finnur fyrir mjúkri húðinni og hverri bugðu á andlitinu sem maður þekkir svo vel.
- Fara í mjúka sloppinn sem ilmar af uppáhaldsilmvatninu, vefja honum um sig, loka augunum og anda djúpt.
- Njóta þess að hella upp á kaffi, skenkja þér í uppáhaldsbollann og horfa út um gluggan á meðan þú drekkur heitan drykkinn….því þú átt aldrei eftir að gera það aftur.
- Hringja og heyra röddina í foreldrum þínum eða börnum. Að geta haft samband við fólkið þitt í gegnum þetta undratæki sem síminn er, er svo sannarlega þakkar vert.
- Fara út og njóta þess veðurs sem væri í gangi, því það mundi ekki skipta máli hvort það væri sól eða rigning. Þetta er síðasta skiptið og regnið á andlitinu er jafn yndislegt og hlýjan frá sólinni.
- Heyra fuglasöng eða í börnum að leika sér, öldunið er bárurnar brotna á steinunum í fjörunni sem angar af salti og þara…. og heyra ”ég elska þig” ….í allra síðasta skipti.
Þakklætið er svo undur stórt og rúmar allt og þetta er það sem er kallað:
Þakklæti á sterum.