Já! Það getur verið mjög girnilegt og áhrifaríkt að skera niður ferska tómata, sellerístöngul og bæta hvítlauk út í græna morgundrykkinn! Blandan er járnrík, sneisafull af steinefnum og vinnur afar vel á móti kvefi, flensum almennt og styrkir ónæmiskerfið.
Drykkurinn minnir örlítið á heilbrigðustu útgáfuna af Bloody Mary, sem iðulega er borin fram með vodkadreitil – en við hér á ritstjórn sjáum okkur hins vegar leik á borði; við slaufum áfenginu og kryddum þennan bráðholla drykk til með salt og pipar! Sumir vilja meina að Tabasco sósa geti verið dásamleg viðbót í þennan hér … ef kvef er að angra þig, ættir þú því að prófa!
U P P S K R I F T:
2 bollar grænkál – stilkhreinsað og skolað
3 bollar smátt skornir tómatar
1 sellerístöngull, smátt skorinn
2 skallottlaukar, smátt skornir
¼ tsk marinn hvítlaukur
Nýkreistur safi úr einu límaldin
⅛ tsk malaður, rauður pipar
Smáklípa af salti
L E I Ð B E I N I NG A R:
Byrjið á því að setja grænkálið og tómatana í blandara. Hrærið vel saman, eða þar til blandan er orðin þétt og mjúk og engar sýnilegar örður eru eftir. Bætið nú við selleríi, skallottlauk, hvítlauk, límaldin, pipar og salti við blönduna.