Ég er þessi sem er föst í hlutverki einhleypu vinkonunnar með furðulegu sögurnar og ævintýrin sem allir elska að hlusta á og mér finnst líka pínu fyndið eftir á. Stundum elska ég það að vera ein. Ég er þessi týpa sem þarf tíma út af fyrir mig, hvort sem ég er að hitta einhvern eða ekki. Stundum finnst mér það hundleiðinlegt að vera ein. Það á samt aðallega við þegar það þarf að slá grasið í garðinum og þegar þarf að festa upp loftljós, en stundum sakna ég þess líka að hafa einhvern hjá mér þegar ég er að horfa á sjónvarpið og er að hlæja að einhverju og uppgötva svo að ég er ein að hlæja.
Í símtali við vinkonu mína segi ég henni frá þessum strák sem ég hitti um daginn og hvernig hann er, hvað hann elskar og hvað hann hatar, hvað hann hefur gert og hvað hann planar og hún segir mér að hann sé alveg eins og ég.
Ég verð voða glöð með það og samþykki að við séum bara alveg eins. Hann er karlkynsútgáfan af mér. Hversu frábært er það að ég hafi fundið mig með typpi og aðeins meira testesterón?
„Þannig að þið bætið hvort annað sem sagt ekkert upp,“ spyr hún þá og ég fer að hugsa.
Jú, hún hefur rétt fyrir sér að mörgu leyti. Við höfum sömu gallana og við segjum hvort öðru að það sé allt í lagi að hafa þessa galla þó að flestir aðrir myndu segja okkur að hysja buxurnar upp um okkur og lagfæra vandann. Við segjum hvort öðru að það sé eðlilegt að hafa vissar tilfinningar, bara vegna þess að okkur líður oft eins, þó þessar tilfinningar eigi jafnvel ekki það mikinn rétt á sér. Ég var hjá lækni um daginn sem sýndi mér fram á að ég hefði ákveðinn kvilla. Ég sagði honum frá því og hann segir mér að hann hafi sama kvilla og að ég eigi ekki að hafa áhyggjur.
Erum við þá traustvekjandi og huggandi fyrir hvort annað eða ýtum við bara undir gallana hjá hvoru öðru og réttlætum þá? Það er gott að vera eins og við erum og við eigum bara að vera þannig og það er ekkert að okkur, heldur frekar eitthvað að hinum.
Eða hvað?
Erum við yang og yang eða yin og yin?
Við höfum sömu skoðanir á öllu, við mótmælum aldrei hvort öðru þar sem við erum í raun sammála um allt. Er það heilbrigt að vera alltaf sammála?
Ég lít á sambönd vinkvenna minna og sé hversu ólíkar þær eru maka sínum. Ein vinkona mín er þannig að hún vill bara stökkva á hlutina, en maðurinn hennar stoppar hana í tæka tíð. Önnur vinkona mín er hrædd við ýmislegt en maðurinn hennar segir að það sé í lagi og veitir henni huggun. Þriðja vinkona mín er rosalega skipulögð og með allt á hreinu og maðurinn hennar er óskipulagður og leggur það í hendurnar á henni að skipuleggja heimilið sem henni finnst fínt þar sem hún gerir það betur.
Hann segir mér frá einhverju sem hefur gerst og mér finnst það fyndið því ég hef lent í því sama, og upplifði það á sama hátt og hann.
Ef ég og þessi gaur eru yang og yang sofum við þá bæði yfir okkur, drekkum of mikið í veislum, gleymum að hlaða símana okkar, frestum að ganga frá mikilvægum pappírum, eyðum óvart öllum peningunum og víkjum okkur undan því að setja bensín á bílinn þar til tankurinn tæmist á miðri hraðbraut?
Ég er nú ekki tilbúin til að slaufa þessu bara vegna þess að hann er eins og ég, á furðulega margan hátt, reyndar virkilega furðulegan hátt, en það fær mig til að spyrja mig þeirrar spurningar:
Er það heilbrigt að deita sjálfan sig?
Er þessi „ballans” nauðsynlegur, að pör bæti hvort annað upp, eða á maður bara að vera heppinn og glaður að hafa hitt einhvern sem er afrit af sjálfri þér?
Hvað segir þú?
Þín,
Vaka Nótt