Áttu gamla frottésokka sem muna sinn fífil fegurri? Er sokkaskúffan jafnvel full af stökum fullorðinssokkum? Ekki alls fyrir löngu tók SYKUR á þeim hvimleiða vanda sem stakir sokkar hafa í för með sér og þá líka hvernig má umbreyta fallegu, stöku sokkunum í litríkt sokkaskrímsli. En fleira má gera úr stökum sokkum!
Þannig er alveg stórsniðugt að nota stöku sokkana sem margnota rykmoppuklúta, sérstaklega sokka sem eru í stærri kantinum og að ekki sé talað um gamla og slitna frottésokka!
Hugmyndin er ekki svo galin, sérstaklega ef taka á mið af þeim sparnaði sem hlýst af margnota rykmoppuklútum, en hér fer líka umhverfisvæn tillaga í meira lagi!
Við leggjum til að hagsýnar húsmæður (og heimilisfeður) hvessi augun á tilboð stórmarkaðanna, ef frottésokkar eru á tilboði og þá sérstaklega í stærri kantinum.
Þegar frottésokknum (eða staka, stóra íþróttasokknum sem enginn kannast við lengur) hefur verið smeygt framan á moppuna, er komin stórkostleg og margnota rykmoppa sem sparar peninga, tíma og dregur úr heimilissorpi.