Það getur komið fyrir að getnaðarvarnir gleymast eða bregðast og kona verður þunguð án þess að hafa ætlað sér það. Sumar konur kjósa að fara í fóstureyðingu en alltaf er stór hluti kvenna sem ákveður að ganga með og eignast barnið þótt barneignir hafi ekki verið á dagskránni. Ef konan er í sambúð geta foreldrarnir tekist sameiginlega á við allt það sem fylgir nýju barni. En það er ekki alltaf svo að kona hafi stuðning barnsföðurins. Þá horfir hún fram á að verða einstæð móðir eða láta barnið frá sér til ættleiðingar.
Er þeim konum sem ákveða að eiga barnið, veitt einhver aðstoð?
Öllum konum sem átt hafa heima á Íslandi síðustu 6 mánuði stendur til boða ókeypis mæðravernd. Í mæðraverndinni fylgist ljósmóðir með líðan konunnar og ófædda barnsins hennar og leysir úr þeim vandamálum sem upp koma með aðstoð læknis og annarra fagaðila. Ennfremur stendur konum til boða að leita til félagsráðgjafa á kvennadeild þeim að kostnaðarlausu. Félagsráðgjafar veita upplýsingar og stuðning við að sækja um faðernisviðurkenningu og meðlag og hjálpa konunni ef hún þarf félagslega aðstoð t.d. vegna húsnæðis, fjármála eða dagvistunar. Allir þeir fagaðilar sem konan hittir eru bundnir trúnaðareið svo það sem hún segir þeim er eingöngu milli hennar og fagaðilans.
Styrkir og opinberar greiðslur til einstæðra mæðra
Allir foreldrar fá barnabætur með börnum yngri en 18 ára og eru þær reiknaðar út frá launum beggja foreldra. Ennfremur er greiddur barnabótaauki með börnum yngri en 12 ára. Einstæðir foreldrar fá hærri barnabætur en þeir sem eru í sambúð. Hið opinbera borgar einstæðum foreldrum mæðra-/feðralaun og sér um að rukka inn meðlag frá föður/móður og greiðir til forsjáraðila barnsins því til framfærslu. Að auki eiga mæður og feður (frá og með áramótum 99/00 eiga feður sjálfstæðan rétt til tveggja vikna samfellds fæðingarorlofs sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns) rétt á fæðingarorlofi og fæðingarstyrk sem er greiddur út eftir að barnið er fætt.
Sjá grein um fæðingarorlof karla í: Vinnan, blað ASÍ
Sjá einnig grein á vefsetri VR: fæðingarorlof Sjá einnig kafla 1.16 á vefsetri Tryggingastofnunar
Faðernisviðurkenning
Til að einstæð móðir geti sótt um meðlag þarf að liggja fyrir faðernisviðurkenning frá föður barnsins. Til að fá faðernisviðurkenningu þarf að fara á skrifstofu sýslumanns með fæðingarvottorð barnsins og skrifa undir pappíra þess efnis að viðkomandi maður sé faðir þess. Síðan er haft samband við hann og hann skrifar undir og vottar að hann sé faðirinn. Ef sá sem konan segir vera föður barnsins neitar að hann eigi barnið er hægt að fara fram á blóðprufu til að skera úr um faðernið. Ef kona neitar að gefa upp nafn barnsföðurs missir hún af meðlagsgreiðslum, nema faðirinn borgi henni beint, en barnabætur, barnabótauka og mæðralaun fær hún eftir sem áður.
Hvað um mæður undir 18 ára að aldri?
Ógiftar stúlkur yngri en átján ára, eru samkvæmt lögum enn á framfæri foreldra sinna. En barnið er á ábyrgð og framfæri móður sinnar eftir að það fæðist þótt hún búi áfram hjá sínum foreldrum. Þó er í vissum tilvikum mögulegt að fá félagslega aðstoð á meðgöngutímanum. Að sjálfsögðu hefur stúlkan öll sömu réttindi og aðrar mæður um leið og barnið er fætt.
Hvað með föðurinn?
Til að barn verði til þurfa maður og kona að koma saman. Barnið á því einnig rétt á að umgangast bæði móður og föður. Það er því barninu fyrir bestu að samskipti foreldranna séu á vinsamlegum nótum, þrátt fyrir að þau búi ekki saman. Mestu skiptir að velferð barnsins sé látin ganga fyrir í samningum um umgengni föður við barn sitt. Vitaskuld verður faðirinn að taka tillit til brjóstagjafarinnar fyrstu mánuðina, en þá ber móðurinni að tryggja að hann geti hitt barnið reglulega. Eftir því sem þroski þess leyfir getur barnið fylgt föður sínum þannig að það fái tækifæri til að tengjast honum ekki síður en móður sinni. Þegar upp er staðið eru góð og jákvæð samskipti öllum í hag – móður, föður og ekki síst barninu.
Grein þessi er fengin af vef DOKTOR þar sem lesa má fleiri greinar um heilsu: