Flestir vita að hægt er að lesa út úr nöglum, augum og hári, hvernig heilsan er og jafnvel hvernig hún hefur verið síðustu vikur. En það eru færri sem vita að varirnar geta verið ákaflega upplýsandi um það hvað er að gerast í kroppnum og hvort einhverju þarf að breyta í lífstílnum.
Varaþurrkur, munnangur og frunsur eru mörgum til ama og varasalvinn er látinn ganga vinkvenna á milli eins og eitthvert töfraseyði sem öllu á að redda. En það eru mikil mistök í mörgum tilfellum og getur smitað þig af alls kyns óværu.
Varaþurrkur er nefnilega ekki alltaf bara varaþurrkur.
Þurrar og sprungnar varir geta verið merki um allt frá sykursýki til Herpes eða jafnvel Crohnssjúkdóms sem á íslensku er nefndur svæðisgarnabólga.
Húðsjúkdómafræðingurinn Shona Birch, sem rekur einkalæknastofu í Kent í Englandi segir þetta:
Mjög heitt eða kalt veður getur orsakað þurrar eða sprungnar varir. En þurrar og sprungnar varir geta einnig verið merki um að eitthvað alvarlegra ami að. Ef einkennin vara lengi og þú veist ekki orsökina er ráðlegast að ráðfæra sig við lyfjafræðing eða lækni.
Það er ýmislegt sem þú getur gert til að halda vörum þínum heilbrigðum. Notaðu varasalva með sólarvörn. Reyndu að sleikja ekki varir þínar þegar kalt er í veðri, því það gerir varirnar einungis þurrari. Og notaðu olíuríkt krem á þær áður enn þú ferð í rúmið á kvöldin til að viðhalda raka.
Hér eru nokkur atriði sem allir ættu að taka eftir og hafa í huga.
Sprungnar varir geta verið merki um: Sykursýki
Sprungnar varir geta verið mjög algengar og stafa í flestum tilvikum vegna vægs blóðleysis, sem getur leitt til opinna fleiðra eða sára í munnvikum. Í einstaka tilfellum getur fyrrgreint þó verið merki um sykursýki, en þegar gildi blóðsykurs hækkar, örvar það sveppasýkingar sem geta ráðist á varirnar.
Bólgnar varir geta verið merki um: Svæðisgarnabólgu (Crohns sjúkdóm)
Flestir vita að svæðisgarnabólga ræðst á þarmana, en hún getur einnig komið fram í munni og á vörum. Þessi sjúkdómur, sem herjar á 1 af hverjum 1000 íbúum Bretlands, getur valdið þrota og bólgum hvar sem er á líkamanum, einnig á vörum.
Heilkennið hefur jafnvel hlotið sitt eigið nafn: „Munn Crohns“, en um það bil 10% af þeim er þjást af svæðisgarnabólgu, eru einnig með einkenni við munnsvæði.
Brennandi varir geta verið merki um: Herpes
Sú tilfinning að varirnar séu að brenna, geta verið með fyrstu vísbendingum um Herpes,sem orsakar frunsur eða áblástur. Innan sólahrings geta þá farið að birtast blöðrur á og í kringum varirnar, sem getur verið sársaukafullt, en eftir nokkra daga springa þær og út lekur vökvi sem smitar frá sér.
Forðist í lengstu lög að snerta þessar frunsur eða kyssa og ekki deila sápu eða varalit með öðrum.
Dofnar varir geta verið merki um: Ofnæmi
Dofi eða stingir í vörunum geta verið merki um verulegt ofnæmi fyrir matvöru eða öðrum efnum, sérstaklega ef bólgur fylgja í kjölfarið. Læknar kalla fyrirbærið ofsabjúg sem stafar af því að ónæmiskerfi líkamans tekur ofsaviðbragð og leysir mikið magn af histamíni út í blóðrásina.
Bláar varir geta verið merki um: Kvashósti (Croup)
Að blána í kringum munninn og á vörunum er öruggt merki um súrefnisskort. Hjá börnum geta bláar varir þó verið einkenni kvashósta sem eru helstu einkenni öndunarerfiðleika og orsaka hásan, geltandi hósta.
Hjá fullorðnum eru bláar varir oft merki þess að hjartað eigi í erfiðleikum með að dæla súrefnisríku blóði um líkamann, til að mynda hjá fólki sem þjáist af hjartavandamálum.
Útbrot á vörum geta verið merki um: Exem
Útbrot í kringum munninn stafar oft vegna þurrks sem kemur ef varirnar eru mikið sleiktar og jafnvel af fingursogi. Exem sem orsakast af þrálátum varasleikingum ætti þó að hverfa þegar ávananum er hætt, en einnig ef notað er 1% hydrocortisone áburður í nokkra daga.
Áblástur eða munnangur getur verið merki um: Lélegt mataræði
Lélegt mataræði, streita eða svefnleysi er oft orsök áblásturs og munnangurs. Þú ættir einnig að forðast mat og drykki sem eru rík af amínósýru sem kallast arginíni, en amínósýran fyrirfinnst m.a. í jarðhnetum, kasjúhnetum, súkkulaði, bjór og kóladrykkjum.
Ef við pössum upp á mataræðið, svefn og heilsu, ættum við allar að vera með heilbrigðar, kyssulegar og djúsí varir… Og hvaða kona vill það ekki?