Þá eru liðnir einir 52 dagar síðan ég drap í síðustu Marlboro sígarettunni, snautaði með lánsaura frá Íslandi út í matvörubúð og festi kaup á ægilega fínu nikótíntyggjói.
Svakalega var ég skömmustuleg þegar ég stakk upp í mig 4 mg lyfjagúmmíinu, setti í pistil og viðurkenndi fyrir landi og þjóð að ég hefði reykt út mjólkurpeninga barnsins. Svolgraði í mig sígarettur og svelti bílinn um bensín. Vælt þessi lifandis ósköp um fátæklegar aðstæður og lagði svo loks spilin á borðið. Ég væri forfallinn sígarettufíkill, ægilega háð eitrinu og alveg sannfærð um að ég gæti ekki drepið í fjandans rettunni, því ég þekki svo lítið annað en líf með sígarettu í hönd.
Ég hafði reykt í svo mörg ár þegar ég drap í þeirri síðustu að ég var búin að gleyma hvernig líf án tóbaks er.
… það hættir enginn bara að reykja.
Ferðalagið hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Ég hóf leika á því að troða í mig sænsku munntóbaki, kláraði svo viðbjóðinn og svissaði yfir í 4 mg nikótíntyggjó. Tuggði og smjattaði út hundrað stykkja pakka og harðbannaði barninu að snerta á viðbjóðnum, keypti því næst 2 mg nikótíntyggjó, sem ég tuggði samviskusamlega – hugleiddi stórum hvort hægt væri að sigla inn í nikótínlausan lífsstíl og hvernig það væri eiginlega að sleppa tökunum með öllu.
(Hvað með að fá sér bara eina?)
Það var svo alltaf ætlunin að taka upp plástur þegar tyggjóið væri á þrotum, en örmagna sem ég var, fékk ég heiftarlega martröð, útbrot og kláða þegar á plásturinn var komið. Það fyrirkomulag hentaði mér ekki og í stað þess að festa kaup á meira tyggjói ákvað ég því að láta á nikótínlausan lífsstíl reyna.
Þú átt að vera miklu lengur á nikótínlyfjunum …
Ferlið er erfitt. Því verður ekki neitað. Ég reykti yfir pakka á dag í áratugi og þekki lítið annað en reykingar. Ég reykti svo lengi að ég veit ekki hvernig nikótínlaus lífsstíll eiginlega er. Einhvern veginn hef ég þó skakklappast gegnum undanfarna ellefu daga og að halda því fram að ferðalagið hafi verið þrautalaust, væri argasta lygi.
… jáh, auðvitað stelst ég í eina á Spáni, reyki úti á tröppum.
Sjálf hef ég verið ægidugleg við að ráðast gegn eigin dugnaði. Hugrenningar á borð við að það hætti enginn að reykja sisvona, til þeirrar veiku vonar að ég geti reykt eina bak við hús í laumi – hafa látið kræla á sér. Þá hefur sá lymski draumur að ég geti alveg keypt mér pakka og fírað í einni þegar komið er til Spánar næsta sumar.
Það þarf enginn að vita að þú hafir tekið smók.
Í dag eru einir 52 sólarhringar liðnir síðan ég hætti að reykja. Það merkir í stuttu máli sagt að 52 sinnum hef ég neitað sjálfri mér um þá fásinnu að borga litlar 1.700 íslenskar krónur fyrir MARLBORO pakka úti í matvörubúð og hef þess í stað lagt hverja einustu krónu til hliðar.
Ég missi alla vini mína ef ég hætti …
Í dag eru því 52 sólarhringar síðan ég hætti að reykja. Á þeim tíma hef ég lagt litlar 88.400 íslenskar krónur til hliðar. Fyrir peningana sem safnast hafa, hef ég svo fest kaup á evrum sem ég mun nýta um þessi mánaðarmót – til að borga að fullu fimm vikna málanámskeið fyrir sjálfa mig og son minn á Spáni næstkomandi sumar.
… hvernig á ég að daðra við menn ef ég drep í?
Í dag eru liðnir 52 sólarhringar síðan ég hætti að reykja. Ég ætla að millfiæra peningana á morgun, alla aurana sem ég hef sparað á 52 dögum – upphæðina sem ég nurlaði saman með því einu að gefa skít í Marlboro sígarettur og grenja söltum tárum gegnum sígarettufráhvörfin.