Skip Marley kann að vera einungis 18 ára gamall en reagge smellurinn Cry To Me, sem jafnframt er fyrsta smáskífa þessa unga tónlistarmanns, rataði inn á menningarhluta Vogue fyrir skemmstu.
Ekki að ástæðulausu en melódískar Reagge-ballöður koma sjóðheitar inn með vetri og ylja sálinni með fallegum undirtóni. Það er þó ekki allt, því Skip er barnabarn Bob Marley og þykir gífurlegur svipur með gamla meistaranum og afastráknum, sem nú stígur sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni.
Skip er, sem áður sagði barnabarn Bob og Ritu, en hann er sonur Cedellu sem er frumburður þeirra hjóna – en drengurinn segist alinn upp við tónlist og að hann þekki lítið annað, en í viðtali við Vogue segir hann reagge-melódíurnar hafa borist honum með móðurmjólkinni:
Tónlist hefur alltaf spilað stóran hluta í lífi mínu og það allt frá fæðingu. Móðir mín, frændfólk mitt og allar götur aftur til afa míns – við erum öll tónelsk. Ég veit ekki hvernig líf án tónlistar er, en eitt leiddi af öðru og ég tók sénsinn á að gera mína eigin tónlist.”
Þar er Skip að vísa til frumraunar sinnar, Cry to Me, sem kom á markað í apríl á þessu ári og fjallar um ástir ungrar stúlku:
Ég er í raun og veru að syngja skilaboð til stelpu – já, í raun og veru allra stelpna sem eru óöruggar og finnast þær ekki nógu góðar. Ég segi einfaldlega; slepptu bara tökunum og leyfðu tilfinningunum að flæða og gráttu bara til mín ef þig langar.
Viðtalið við hinn 18 ára gamla Skip Marley má lesa á vef Vogue en hér má hlýða á fyrstu útgefnu smáskífu barnabarns Bob Marley sem hlotið hefur einróma lof gagnrýnenda: