Breska lögreglan (eða lögreglan í Thames Valley) kýs að nálgast kynfræðslu og umræðu um samþykki á óvenjulegan máta; með því að líkja kynmökum við tedrykkju.
Þannig gaf breska lögreglan út stórskrýtið en bráðskemmtilegt myndband fyrir skemmstu sem ætlað er að varpa ljósi á hvernig má greina hvenær hægt er að eiga heimtingu á kynmökum og hvenær fáránlegt er að ætla að kona (eða karl) vilji sofa hjá karli (eða konu).
Myndbandið sýnir, í stuttu máli sagt, Óla Prik í fjölbreytilegum aðstæðum. Óli býður upp á, lagar, þiggur og hafnar rjúkandi tebolla (sem ætlað er að tákna kynlíf).
„Ef þú hellir upp á rjúkandi heitt te og býður bolla og viðkomandi segir já, þá veistu að sá sem um ræðir er alveg til í að drekka smá te. En ef sá hinn sami segist ekki alveg viss um hvort hann eða hún vilji þiggja tebollann, getur þú í sjálfu sér hellt upp á te – en mátt ekki ganga út frá því sem vísu að tebollinn verði drukkinn.“
Fjölmargar tillögur eru teknar til umfjöllunar í myndbandinu; til dæmis hvernig bregðast eigi við ef einhver skiptir um skoðun meðan hellt er upp á te, en samkvæmt myndbandinu ber viðkomandi engin skylda til að drekka tebollann þó hellt hafi verið upp á heila könnu. Þá er athygli vakin á því að aldrei skuli troða tebolla upp á meðvitundarlausa manneskju:
„Ekki hella upp á te fyrir meðvitundarlausa manneskju. Bara ekki gera það. Meðvitundarlausar manneskjur hafa engan áhuga á tedrykkju, en geta ekki afþakkað tebollann vegna meðvitundarleysis.“
Myndbandið hefur vakið hörð viðbrögð og talsverða gagnrýni en einnig lof fyrir skýrt og afdráttarlaust myndmál. Dæmi hver fyrir sig, en hér útskýrir kynferðisbrotadeild bresku lögreglunnar hvað kynferðislegt samþykki í raun merkir og hvernig lögin túlka nauðgun: