KVENNABLAÐIÐ

Á S T I N: FIMM ótvíræð merki um að HANN sé EITRAÐUR í SAMSKIPTUM

Til að skilja karlmann, er allra best að leita til karlmanns og þá er ekki verra ef viðkomandi er vel að sér í mannlegum samskiptum. Matthew Hussey, stefnumótasérfræðingur og sambandsráðgjafi með meiru, sem einnig heldur úti vefsíðunni Get The Guy (hvorki meira né minna) segir þannig fimm óafsakanleg atriði geta skorið úr um hvort karlmaður gefur frá sér eitraða orku í samskiptum eða ekki.

Í stuttu máli sagt, skaltu taka til fótanna og hlaupa á harðaspretti í burtu frá karlmanninum ef þú verður vör við ítrekaða hegðun á borð við þá sem lýst er hér að neðan – í samskiptum ykkar. Þú átt allt það besta skilið, kæra vinkona og skalt setja markið hátt í einkalífinu – samhliða því að þú ættir að kappkosta að vera besta útgáfan af sjálfri þér!

#1 – Þú þorir ekki að tala um vandamál við hann:

Hann bregst undantekningarlaust illa við umræðu um vandamál og beinir kastljósinu að þér. Eitthvað í þínu eigin fari hljóti að hafa valdið vandanum. Þú berir þess vegna ábyrgð á því hvernig komið er. Þetta sé allt þér að kenna. Sem gerir að verkum að þú ferð að tipla á tánnum …

#2 – Hann biðst ekki og aldrei afsökunar:

Auðvitað gera allir mistök. Nema hann. Þetta var bara misskilningur og ýmist er hægt að hlæja sig í gegnum vandann eða koma því þannig fyrir að þú hafir í raun haft rangt fyrir þér, en ekki hann. Sem svo aftur gerir að verkum að þér finnst þú vera hálf klikkuð … (sem þú ert ekki, mín kæra.)

#3 – Hann viðurkennir ekki að hann sé særður, en særir til baka:

Honum myndi aldrei detta til hugar að viðurkenna að honum líði illa. Né heldur segja þér í einlægni frá því ef hann er afbrýðisamur og finnst þú sýna öðrum karlmanni of mikinn áhuga. Þvert á móti brosir hann sínu blíðasta og gengur svo úr skugga um að þú sjáir hann örugglega daðra við aðra konu, til að tryggja að þú upplifir afbrýðisemi eins og hann áður. Hálfgerð Auga-Fyrir-Auga-Tönn-Fyrir-Tönn tækni. Sem er EKKI töff.

#4 – Hann gerir lítið úr þér fyrir framan annað fólk:

Hann gerir lítið úr þér þegar þið eruð úti á meðal fólks, til að líta betur út sjálfur. Málið er hins vegar að þó einhverjir félagararnir hlæji með honum, finnst fæstum fyndið að heyra fullorðinn karlmann gera lítið úr kærustunni sinni á huggulegum bar. Sá hlær best sem síðast hlær … láttu brandarann enda á hans kostnað. Slíttu sambandinu ef þessu linnir ekki!

#5 – Hann samgleðst þér sjaldan en er styðjandi og hlýr þegar þér mistekst:

Þetta er kannski ekki áberandi í fyrstu. Þú færð stöðuhækkun í vinnunni en hann gerir umsvifalaust lítið úr launakjörum og segir að nú þurfir þú að þræla enn meira fyrir smáaura, jafnvel með umhyggjusvip á andlitinu. Sannleikurinn er sá að honum stafar ógn af styrkleikum þínum og hann getur ekki haldið í við þig þegar vel gengur. Þess vegna reynir hann að draga úr vilja þínum, því þegar þú ert sem veikust fyrir og niðurdregin, getur hann breitt út vængina og fundið til eigin mikilvægis. Mundu alltaf að rétti karlmaðurinn fyrir þig, stendur hins vegar þétt við bakið á þér þegar vel gengur og myndi aldrei gera nokkuð til að draga úr getu þinni.   

Get The Guy

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!