Draumi líkust ljósmyndasería sem sýnir rússneskar járnbrautarstöðvar í allri sinni dýrð og ljóma stendur nú yfir í Listasafni Jennifer Kostuik í Vancouver en ljósmyndirnar, sem munu hanga til sýnis í safninu til 8 nóvember á þessu ári, varpa ægifögru og um leið hrikalegu ljósi á sokkabandaár Stalíns í gömlu Sovétríkjunum.
Kiyevsskaya lestarstöðin, Moskva
Seríuna tók David Burdeny, sem er ljósmyndari og mun búsettur í Vancouver en hann eyddi yfir tveimur vikum á síðasta ári við tökur á lestarstöðvunum sem sjá má hér á meðfylgjandi myndum. Samningaviðræður við rússnesk yfirvöld gengu þó ekki þrautalaust fyrir sig. Þannig þurfti David að greiða ákveðið þjónustugjald; eða hreinlega að taka hverja og eina járnbrautarstöð á leigu í klukkutíma og mátti aðeins hefja linsuna á loft eftir miðnætti, þegar allir farþegar höfðu yfirgefið járnbrautarstöðina og lestar voru hættar að ganga þann sólarhringinn.
Avoto lestarstöðin, Sankti Pétursborg
Árangurinn er þó magnaður – en engu líkara er en að rússneskar lestarstöðvar, í það minnsta þær sem sjá má í Moskvu og Sankti Pétursborg, séu minnisvarði um þjóðlega listsköpun og minna þannig innviðir lestarstöðvanna meira á rússneskt listasafn en almenningssali.
Mayakovskaya lestarstöðin, Moskva
Sagan hermir að marmaraklæddar neðanjarðarhvelfingarnar og glæstar kristalskrónurnar í loftinu; mikilfengleg málverkin og gífurlegir ljóskastarar séu runnir undan rifjum kommúnistaleiðtoga gömlu Sovétríkjanna, sem árið 1935 fyrirskipuðu að dýrðarinnar málverk af þáverandi þjóðhetjum skyldu tróna á öllum lestarstöðvum.
Elektrozavodskaya lestarstöðin, Moskva
Tilgangurinn var áróðurskenndur; lestarstöðvar skyldu þjóna sem hallir alþýðunnar og glæstum arkitektúrnum var ætlað að gleðja augu verkafólksins og leiða þeim fyrir sjónir hverju dugnaður þeirra og elja skilaði í formi skattpeninga og hvernig ríkissjóður endurgreiddi þegnum sínum í formi fagurra almenningshalla.
Taganskaya lestarstöðin, Moskva
Kóbalbláum skreytingum, ægifögrum kristalskrónum og rúbínrauðum glæsiskreytingum, bronsafsteypum og glæstum hvelfingunum var ætlað að þvinga fólk til að líta upp í bókstaflegri merkingu og færa Stalín þakkir fyrir að hafa hlúð svo vel að samfélaginu, en hverjir listamennirnir voru kemur hins vegar hvergi fram og eru öll listaverkin því ekki kennd við neina einstaklinga aðra en rússneska listamenn sem ljáðu ríkinu þjónustu sína endurgjaldslaust.
Komsomolskaya lestarstöðin, Moskva
Novolobodskaya lestarstöðin, Moskva
Sokol lestarstöðin, Moskva
Arbatskaya lestarstöðin, Moskva