Almáttugur! Tæknin sem hér er sýnd, er ekki á færi fúskara að framkvæma – heldur ætti alltaf og einungis að vera framkvæmd af fagfólki. En vilji svo til að þú hafir fallið í stafi yfir Galaxy-trendinu (líkt og ritstjórn) þá skaltu hvessa augun núna og kynna þér SMOKESTACK litatrendið sem er ótrúlega áferðarfallegt!
SMOKESTACK gengur í raun út á að tóna hárið í sterkum litum svo áferðin líkist einna helst reykmekki sem liðast gegnum fallegan hármakkann; frá dökkum og til ljósari litatóna sem eru draumkenndir ásýndar og minna helst á ævintýralega senu úr veröld álfa og huldufólks.
Draumkennt á að líta – SMOKESTACK í allri sinni dýrð og ljóma:
Dekksti tónninn er sá sem er næst hálsinum og hárlínunni og svo tónar háraliturinn sig upp um einn tón í einu, allt að ennislínunni – þar sem hárið er hvað ljósast. Dásamlegt, flókið í framkvæmd en eftirsóknarvert og aðdáunarvert á að líta.
SMOKESTACK: Svona er hárinu skipt upp í reiti:
Hugtakið SMOKESTACK merkir í raun reykjarbólstrar og hermir eftir aflíðandi reyk sem stígur til himins, en að baki tæknilegri útfærslunni stendur hárvörufyrirtækið PRAVANA sem einnig framleiðir og selur litina sem nota á við litunina sjálfa. Listrænn stjórnandi fyrirtækisins, litasérfræðingurinn Vadre Grigsby, á allan heiðurinn að hugmyndinni sjálfri, en eins og bera gefur að skilja – ætti einungis fagfólk að spreyta sig á þessari undurfögru háralitun.
Hér má sjá kennslumyndband sem sýnir hvernig SMOKESTACK er framkvæmd: