Jólin eru mörgum mjög erfiður tími og þá sérstaklega foreldrum. Það er svo margt sem þarf að huga að og flest öll þekkjum við það að vilja eiga góðar minningar á þessum hátíðardögum. Við sem foreldrar þá sérstaklega, því við viljum búa til góðar minningar fyrir börnin okkar.
Árið 2014 kviknaði sú hugmynd hjá stofnanda Jólakraftaverks, að bjóða fram aðstoð sína við að hjálpa fjölskyldum á jólum. Engan hefði órað fyrir því að það væru svona margir sem þurftu á aðstoðinni að halda. Því miður eiga alltof margar fjölskyldur á Íslandi í dag um sárt um að binda og það vilja allir gera sitt besta fyrir fjölskyldu sína, en hafa ekki endilega fjármagn til þess. Fyrirtæki, stór og smá, voru öll til í að hjálpa og buðu fram litlar gjafir sem voru nýttar, tekin voru fjölmörg viðtöl við ábyrgðarmanneskjur Jólakraftaverks og kraftaverkið fæddist.
Nú hefur þessi hugmynd dafnað og vaxið enn meira og var því stofnaður hópurinn Jólahjálp 2015 í sama tilgangi fyrir jólin 2015. Í stað þess að hafa hópana tvo í sitt hvoru lagi, ákváðu stofnendur ásamt stjórnendum hópanna að sameinast í einum stærri hóp, sem ber nafnið Hátíðarvon.
Jólin 2015 er stefnan tekin enn hærra, því nú erum við með fleiri hendur sem geta hjálpað og veitum starfinu meira aðhald um þessi jól. Stefnan hjá hópnum er að halda kökubasar, gefa út jóladagatal með mörgum skemmtilegum vinningum sem hægt er að nýta fyrir jólin og fleira.
Hugmyndin kom frá Védísi Köru sem er stofnandi Jólakraftaverks í fyrra. Hún hafði þá séð um allar jólagjafir sín megin og ákvað að bjóða fram sína hjálp, en fékk þær Öldu Björk og Anítu Rún til liðs við sig með frábærum árangri. Nú hafa fleiri hjálparsveinar bæst við og hópurinn hefur hlotið nýtt nafn.
Hátíðarvon er ekki fyrirtæki heldur einungis hópur af stelpum sem vilja hjálpa sem flestum fyrir og um jólin.
Þið getið sent póst á aðalnetfang Hátíðarvonar [hatidarvon@gmail.com] þar sem þið getið bæði boðist til að aðstoða fjölskyldur með gjöfum fyrir jólin, hvort sem þær eru handgerðar eða keyptar og einnig beðið um aðstoð frá hópnum. Allt sem getur hjálpað fjölskyldum og einstaklingum er hægt að bjóða fram.
Allar fyrirspurnir um aðstoð eru algerlega nafnlausar og fullum trúnaði er heitið.