KVENNABLAÐIÐ

„Mamma þarf aðeins að reykja, elskan …”

Það er svo margt sem ekki má segja. Til dæmis er mér nær ómögulegt að viðurkenna að nú fyrir stuttu eyddi ég síðustu mataraurunum í tóbak. Það bara gerðist; við sátum hér heima – ég og barnið. Ég drap í síðustu sígarettunni, sagði sjö ára gömlum syni mínum að drekka örlítið meira vatn – gróf gamalt brauð upp úr frystinum, greip bíllyklana og fór út í búð til að kaupa einn rauðan Marlboro fyrir síðustu krónurnar mínar.

Við snæddum smjörsteiktar núðlur það kvöldið. Kaffið drakk ég svart næstu tvo daga og að lokum fóru leikar svo að ég varð að slá lán hjá foreldrum mínum, sem eru búsettir á Íslandi. Hringdi skömmustuleg heim, kveikti í síðustu sígarettunni, dró reykinn djúpt að mér og bunaði út úr mér orðunum:

„… æ, ég var að spá hvort þú gætir lánað mér tíu þúsund kall?”

Pakkinn kostar u.þ.b. 1.700 íslenskar krónur hér í Noregi. 16 evrur. 110 norskar krónur. Plís, ekki leiðrétta mig og fara að diskótera gengi Seðlabankans. Ég veit allt um þetta mál og líka að sennilega eru útreikningar mínir ekki alveg réttir. En ansi nærri lagi þó. Hann er örlítið dýrari en heima í henni gömlu Reykjavík, rauði Marlboro pakkinn. Reyndar fæ ég iðulega að heyra minnst á kaupmáttinn hér ytra, þegar samanburð á útgjöldum og launum ber upp.

„Já, en svo er kaupmátturinn nú meiri og launin auðvitað hærri …”

Eins og maður smjatti bara á gulli hér í Noregi og reki upp stórkarlalegt óp þegar launaseðill dettur inn í hús. Festi kaup á hraðskreiðum bát fyrir barnabótapeningana og reiði fram kalkúnabringu í hvert mál. Get svo svarið það fyrir ykkur, þarna hinu megin við hafið – við hér á meginlandinu þurfum líka að draga fram andann og það er ekkert launungarmál að eitt þúsund og sjö hundruð íslenskar krónur er ansi væn upphæð fyrir einn skitinn pakka af Marlboro.

Barátta mín við tóbakið hófst fljótlega eftir að við fluttumst til Noregs. Auðvitað var ég löngu byrjuð að reykja. En launin eru bara ekki alltaf hærri hér ytra. Þess utan eru sígarettur ódýrari á Íslandi og heima í henni gömlu Reykjavík gat ég alltaf skroppið í mat til pabba. Eða fengið mér kaffi hjá mömmu. Hreiðrað um mig á kaffihúsi. Slegið lán hjá kunningja. Fengið rettur að láni. Þið reykingafólkið skiljið hvað átt er við. Sigaretturnar ganga fyrir öllu. Það var þó ekki fyrr en til Noregs var komið, að halla tók undan fæti og bölvað tóbakið fór að síga í svo glumdi. Því við flutningana rauf ég tengslin við öryggisnetið. Ég þurfti að standa alfarið á eigin fótum. Alltaf.

Lengi vel hafði ég varla efni á mjólk, hvað þá dagvistunargjöldum fyrir barnið. Sígaretturnar, sem eru talsvert dýrari hér, tóku nefnilega sinn skerf af mánaðarhýrunni. Varla er hægt að útskýra fyrir leikskólabarni að mamma hafi sólundað matarpeningunum í tóbak, svo ég tók upp á því að segja, þegar barnið bað um leikfang eða mjólkina þvarr á heimilinu:

„… bíddu elskan, mamma þarf aðeins að reykja.“

Svo hvarf ég bak við húshorn með sígarettuna milli fingranna, saug í mig reykinn með áhyggjusvip og velti því fyrir mér hvort hægt væri að bleyta upp þurrmjólk og hafa út á hafragrautinn. Kannski var staðan ekki alveg svona slæm og ég bæti örlítið í núna, en svona er heimilislífið í minningunni – þegar ég lít um öxl og velti því vandlega fyrir mér, hvernig við fórum að – áður en ég drap í síðustu sígarettunni þann 10. september síðastliðinn.

Orðin sem ég læt falla hér að ofan eru þung. Ég skammast mín fyrir að skrifa um jafn hversdagslega athöfn og sígarettureykingar eru. Leiðist að segja frá þessu öllu saman. Hvað býr í huga reykingamanneskju og hvernig tóbaksfíknin fer með mánaðarhýruna. Langar að líta út eins og nútímaseruð Greta Garbo, dulúðug á svip og hulin vindlingamekki. En þannig er daglegu lífi reykingafólks hins vegar bara ekki farið. Kynþokkafullir vindlingapúarar eiga bara heima í bíómyndum og veruleikinn er annar.

Hér í Noregi kostaði tóbakið mig litlar 51.000 íslenskar krónur á mánuði, meðan ég enn reykti og ég lét mig hafa það um hríð. Harkaði af mér, tautaði eitthvað um slæmar taugar, eldaði hafragraut, gekk jafnvel með barnið í leikskólann til að spara bensín og sagði engum frá því að mjólkin væri á þrotum. Kveikti bara í annarri sígarettu, hringdi heim til Íslands og sló lán fyrir mat út þann mánuðinn. Reykti svo örlítið meira til að sefa mestu áhyggjurnar. Keypti annan pakka og hóstaði smá.

Svo rann dagurinn einfaldlega upp. Símtalið. Ósk eftir láni. Það var ég sem fylltist skömm, sálin sem vaknaði til lífsins þennan sama dag og konan ég, sem setti fótinn í gólfið og drap í síðustu sígarettunni þann 10. september síðastliðinn. Ég fékk einfaldlega nóg. Það er ekki eðlilegt að ríflega fertug kona geti ekki séð afkvæmi sínu farborða; allt vegna sígarettureykinga. Angi eins og skorsteinn og neiti barninu um mjólk.

Ég þarf að skrifa þennan pistil. Greina frá stöðu minni áður en ég drap í síðustu sígarettunni, segja frá baráttunni við nikótíndjöfulinn og horfast sjálfviljug í augu við þann gríðarlega kostnað sem hefur hlotist af tóbaksreykingum mínum undanfarin ár. Ég þarf að búa yfir nægu hugrekki til að geta horfst í augu við umheiminn, bein í baki og viðurkenna fölskvalaust að ég reykti út mjólkurpeninga heimilisins, gekk með barnið á leikskóla því ég hafði eytt mánaðarhýrunni í Marlboro.

Ég þarf að skrifa þennan pistil, því á hverjum einasta degi tek ég ákvörðun allt upp á nýtt. Ég þarf að skrifa þennan pistil því ég er hætt að reykja. Ég þarf að kasta orðunum út í umheiminn, rétt eins og til að staðfesta ákvörðun mína. Ég, Klara Egilson Geirsdóttir, er hætt að reykja. 

Ég hef leitað aðstoðar gegnum Reyklausa símann, spurt Google ráða, rætt við vinkonur mínar og hreykt mér við mömmu. Lagt peninga til hliðar, laumað súkkulaði að barninu – fyllt bílinn af bensíni, fest kaup á flugmiðum til Spánar, vaknað úthvíld að morgni og smjattað svo ótæpilegt magn af nikótíntyggjói að ég er orðin dofin á tungubroddinum. En ég hef ekki enn reykt aðra sígarettu. Ég er nefnilega hætt að reykja.

Meðan fingur mínir hafa flögrað yfir lyklaborðið og ég gælt við orðin sem myndast eitt af fætur öðru, hefur einnig runnið upp fyrir mér það ljós að sígarettur eru fíkniefni. Reynsla mín, sem ég hef greint frá hér að ofan, er ekki ósvipuð þeirri frásögn sem fíkniefnaneytendur lýsa þegar þeir fjalla um neyslu sína. Ég prísa mig sæla, því ég er enn til frásagnar. Lyktarskynið endurheimti ég að öllum líkindum aldrei. En ég stend enn upprétt, ísskápurinn er fullur af mat og það er tilkomið vegna þeirrar einföldu staðreyndar að ég er hætt að reykja.

Ég hef verið reyklaus í 36 daga og hef aldrei verið hreyknari á allri minni ævi.

11201549_870981879651870_767883771_n

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!