KVENNABLAÐIÐ

GALAXY HAIR – Mögnuð hártíska sem endurspeglar litadýrð fjarlægra sólkerfa!

Gleymdu bleiku, bláu og grænu hári; ombre litum og marglita strípum – því nú eru það fjarlægar stjörnuþokur sem eiga hug og hjörtu ungu kynslóðarinnar og sú ástríða endurpspeglast í hártískunni í vetur.

Í stuttu máli sagt gengur stjörnuþokutískan út á að afrita og herma eftir litlum fjarlægra stjörnuþoka með háralit en Instagram úir og grúir í kennimerkinu #galaxyhair þessa dagana, þar sem sjá má ótrúlegar svipmyndir af stjörnuþokuhári og jafnvel litum sjálfrar Vetrarbrautarinnar brjótast fram á ljósmyndum af gullfallegu og vel hirtu hári.


Fantasíulitun er tískan oft kölluð líka, en ferlið sjálft er mjög tímafrekt og ekki á færi allra að framkvæma. Langi þér til að ganga um með enduróm af stjörnuþoku, leggjum við því til að þú leitir á náðir fagmanna sem kunna með sérlitun að fara og þá máttu einnig búa þig undir heilt síðdegi á hárgreiðslustofunni, því slíkar kúnstir taka talsverðan tíma í framkvæmd.


Fyrst þarf því nefnilega að aflita hluta af hárinu, því næst velja litina saman og jafnvel blanda svo útkoman verði sennileg; og svo er það sú nákvæma kúnst að tóna litina saman og jafnvel að tví- eða þrílita ákveðna lokka. Þá er óupptalin sú umhirða sem fer í að viðhalda litladýrðinni, sem er ekki lítill vandi og þarf sérstakt litasjampó að koma til svo ekki illa fari þegar fram líða stundir.


Best er sennilega að heimsækja sömu hárgreiðslustofuna á nokkurra vikna fresti til að fríska upp á þá liti sem hafa dofnað hvað mest svo listaverkið taki ekki á sig skellótta mynd, en þess utan er ráðlegt að nota ekki hárefni í óhófi né að styðjast um of við krullu- og sléttujárn. Það er því ekki einfalt mál að viðhalda regnbogahári en þess virði þó ef um sérstakt tilefni er að ræða, fyrir suma alla vega.


Auðvelt er að áætla að einhverjar ljósmyndirnar sem birtast á Instagram séu unnar að hluta gegnum Photoshop í þeim tilgangi að skerpa á litunum, aðrar eru hins vegar ósviknar. Þá má ekki gleyma því að listilegustu svipmyndirnar sem Hubble sjónaukinn hefur fangað af fjarlægum sólkerfum og sprengistjörnum hafa líka verið litaðar til að skerpa á áherslunum, en hverju sem því líður er stjörnuþokuhárið töfrandi ásýndar og draumkennt … myndir þú þora?

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!