Jennifer Connell, sem rataði i heimsfréttir fyrr í þessari viku fyrir það eitt að hafa lagt fram 16 milljóna króna skaðabótakröfur á hendur frænda sínum, sem felldi fimmtuga konuna í gólfið af einskærri gleði fyrir fjórum árum síðan og úlnliðsbraut hana af hreinni ást og óvitaskap – hefur stigið fram og mótmælir ásökunum harðlega.
Jennifer, sem hefur hlotið viðurnefnið FRÆNKAN FRÁ HELVÍTI eða #AuntFromHell er alveg snakill yfir eðli umfjallana, þar sem hún er meðal annars sökuð um að reyna að féfletta saklaust barn sem nýverið missti móður sína og segir um einfalda tryggingafléttu vera að ræða, en ekki mannvonsku.
Sjá einnig: 12 ára drengur sýknaður af 16 milljóna króna skaðabótakröfu fyrir að faðma frænku sína
Þannig rær Jennifer nú lífróður á samskiptamiðlum sjálf og segir að kæran hafi verið lögð fram í samráði við lögfræðiteymi hennar eftir að hennar eigið tryggingafélag neitaði að bera kostnað af sjúkrakostnaði vegna slyssins, en fjögur ár eru nú liðin síðan Jennifer féll í gangstéttina þegar frændi hennar – þá átta ára gamall, kastaði tvíhjólinu frá sér og felldi fimmtuga konuna þegar hann kastaði sér í fang hennar og æpti: „Jen frænka! Ég elska þig! Takk fyrir að koma í afmælið mitt!”
Fjölmiðlar eru búnir að afskræma mig og gera úr mér skrímsli. Þetta átti að vera einföld skaðabótakrafa sem hafna átti að lokum á borði tryggingafélags. Heimilistryggingin átti að bæta tjónið, en lagabálkarnir í Connecticut, þar sem barnið er búsett ásamt föður sínum, er það flókin að við [Jennifer og lögmaður hennar] þurftum tilneydd að orða kröfuna á þennan hátt.
Þá vill Jennifer meina að lagaumhverfið í Connecticut fylki sé það flókið og erfitt viðureignar að hún hafi tilneydd verið knúin til að gera einstakling ábyrgan fyrir vanlíðan hennar og útlögðum sjúkrakostnaði. Sem svo aftur leiddi til þess að drengurinn, sem heitir Sean, var ákærður og stefnt fyrir rétt.
Um samskipti sín við fjölskylduna sagði Jennifer þá einnig:
Ég elska barnið! Ég myndi aldrei gera neitt til að skaða drenginn. Hann myndi aldrei gera neitt sem gæti meitt mig eða ollið mér vanlíðan.
Þá klykkti Jennifer út með þeim orðum að hún hefði verslað Hrekkjavökubúning á frænda sinn fyrir fáeinum vikum síðan og að þau væru bestu mátar.
Já, hugsið ykkur bara hvernig samskiptamiðlar geta verið. Ég er sko bara að reyna að borga sjúkrakostnaðinn minn og fór fyrir rétt í þeim erindagjörðum en búið er að taka allt úr samhengi hérna – ég er ekkert að reyna að festa kaup á frönsku óðalssetri fyrir þessa peninga.
Lögmaður Jennifer gaf þá einnig út opinbera yfirlýsingu þar sem farið var ofan í saumana á þeirri ákvörðun Jennifer að lögsækja barnið, en þar meðal annars fram að tryggingafyrirtæki konunnar hefði boðið henni því sem nemur einum dollara í skaðabætur:
Skjólstæðingur minn var efins um að slík lögsókn myndi borga sig, en sættist á þessa nálgun að lokun þar sem hún á í mestu erfiðleikum með að greiða sjúkrareikninga sína. Hún vildi ekki gera neitt mál úr hlutunum, en þar sem tryggingafélagið neitaði að veita henni bætur sá hún sér ekki annað fært. Auðvitað erum við vonsvikin yfir þessari útkomu en ætlum að una úrskurðinum. Hins vegar liggur skjólstæðingur minn undir árásum á samskiptamiðlum núna, eins og konan hafi ekki upplifað nóg nú þegar.
Vissulega er svo þeirri spurningu ósvarað hvort tryggingafélög séu í raun svo hörð í horn að taka, en hins vegar má leiða líkum að því að brákaður úlnliður hljóti að hafa gróið sæmilega á þeim fjórum árum sem liðin eru frá atvikinu sjálfu.
Perez Hilton greindi frá