Hæ elskurnar! Haustskreytingar hafnar og allt í gangi hjá Frúnni í eldhúsinu! Allt vaðandi í glimmer þessa dagana, litlu molarnir mínir og allir skurðhnífar komnir ofan í skúffu!
Já, það er rétt. Frúin ætlar EKKI að skera út graskerin í ár. Frúnni finnst það bara subbulegt sport og krækti þess vegna í gylltan glimmer, keypti sér fallegan gjafapappír og svo voru bara föndurskærin tekin upp. Elskurnar mínar, auðvitað fann svo Frúin ekki upp á þessu sjálf. Þessar útlensku ætla allt um koll að keyra þessa dagana og hér fékk Frúin hugmyndina að þessum ógurlega lekkeru skreytingum fyrir Hrekkjavökuna í ár.
Auðvitað spreyjar Frúin svo bara grasker og skreytir með blómum í stað þess að dunda við einhverja drullu og skafa innan úr graskerinu með skeið! Af hverju manni hafði ekki dottið þetta til hugar fyrr … en þetta er einmitt pínu 2015, ekki satt?
#1 – Jæja, hvað um það. Það sem til þarf er auðvitað graskerið sjálft.
Hvít málning (Frúin fór nú bara og verslaði spreybrúsa og lagði graskerið ofan á gömul dagblöð úti á svölum) en auðvitað er hægt að dunda við þetta allt saman með akrýlmálningu og svamp-pensli eins og sú útlenska sýnir hér:
#2 – Uppáhalds gjafapappírinn er svo bara snyrtur til og límdur á graskerið!
Gjafapappírinn er svo einfaldlega klipptur út (lekkert, ekki satt!) og límdur á graskerið! Auðvitað má skreyta að vild og líma alveg eins og vindurinn – fram og til baka og allt eftir hentugleik. En farið varlega í kantana!
#3 – Skreytingin er svo látin standa til þerris í hæfilega stund:
… því ekki viljum við að límið flosni upp, glimmerinn streymi undir gjafapappírinn og allt fari í handaskol.
#4 – Berið límið á stöngulinn þegar graskerið og skreytingin hefur þornað og stráið glimmer yfir!
Glimmerinn setur svo punktinn yfir I-ið, en Frúin á þetta ægifína spreylím (úr brúsa, já) sem hún notar til að úða á graskerið sjálft áður en hún snýr glimmerkrukkunni á hvolf og úðar yfir Hrekkjavökuskreytingarnar.
#5 – Notið glimmer að vild á minni graskerin!
Svo getur verið ægilega lekkert að para nokkur grasker saman, gullin mín! Og skreyta með glimmer!
Svo gasalega fallegt og fínt, molarnir mínir!