Tom Ford er alltof svalur fyrir tískuvikuna í París, þess utan á kafi í tökum á kvikmyndinni Nocturnal Animals, en frumraun hátískuhönnuðarins, A Single Man, var tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Engu að síður kynnti hátískuhönnuðurinn vor- og sumarlínu fyrir árið 2016 um það leyti sem tískuvikan hófst í París fyrr í október en á þann hátt sem aldrei hefur verið gert áður; hann kynnti línuna gegnum tónlistarmyndband þar sem sjálf Lady Gaga fór fyrir fríðu föruneyti og söng slagara diskódrottningarinnar Chic – I Want Your Love.
Enginn vafi leikur á því að Tom Ford sótti innblástur í glitrandi diskógalla og logagylltar yfirhafnir sem hefðu sæmt sér vel á Studio 54, sem var alræmdur næturklúbbur sem var upp á sitt besta á hápunkti diskótímans.
Tryllingslega flott lína og fáránlega frumleg leið til að keyra hátískulínu fyrir augu almennings. Hér fer vor- og sumarlína Tom Ford með Lady Gaga í fararbroddi: