Þeir kunna sitt fag, bandarísku kokkarnir sem fara stórum á Buzzfeed. Því verður seint neitað og þá er ótrúlegt, hvað má gera mikinn veislumat úr nánast engu. Vissir þú til að mynda að ricottaostur er ekki bara guðdómlegur í matargerðina; sósur og kökur – heldur einnig á ristað brauð?

Við hér á ritstjórn erum agndofa af aðdáun yfir því hugarflugi sem bandarísku smáréttakokkarnir búa yfir, en utan þess að kunna lagið á smáréttunum – virðast þeir einnig sérfróðir um hvernig búa á til ricottaost frá grunni og það í örbylgjuofni. Uppskriftina þá má finna HÉR en að neðan má sjá fimm guðdómlegar tillögur að sérstaklega skemmtilegu ristuðu brauði sem inniheldur ekki margar kaloríur en er ægilega freistandi!
#1 – Ricottabrauð með ferskum jarðarberjum, hráhunangi og svörtum piparkornum:

Fersk jarðarber eru æðisgengin með ricottaosti. Prófaðu að smyrja ricottaosti á ristaða brauðsneið, skera niður nokkur jarðarber, láttu 1 msk af hráhunangi drjúpa yfir sneiðarnar og sáldraðu grófmöluðum, svörtum pipar yfir allt.
#2 – Ricottabrauð með bananasneiðum og Nutella:

– Almáttugur! Sneiddu lítinn banana niður, smyrðu ristaða brauðsneið með ricottaosti og láttu bananasneiðarnar yfir. Með 2 msk af Nutella er himnesk brauðsneið fædd!
#3 – Ricottabrauð með maís, skalottulauk og ferskum jalapeno:

– Þessi brauðsneið er ekki fyrir þá veiklyndu. Smyrðu ricottaosti ofan á ristaða brauðsneið; hrærðu því næst saman 3 msk af maís, 1 litlum, fínt söxuðum skalottulauk, 1 msk af fínsöxuðum jalapeno og 1 msk af ólívuolíu. Kryddaðu til með salti og pipar og sáldraðu ofan á ristaða ricottaosta-brauðsneiðina!
#4 – Ricottabrauð með grænu pestó, svörtum pipar og smátt skornum tómat:

Smyrðu ricottaostinum ofan á ristaða brauðsneiðina, smyrðu því næst 2 msk af grænu pestó ofan á ricottaostinn og saxaðu niður einn lítinn tómat, sem toppar brauðsneiðina. Kryddaðu til með salti og pipar og borðaðu í einum grænum!
#5 – Ricottabrauð með spældu eggi og rauðum piparflögum:

Hitaðu tvær msk af ólívuolíu á lítilli pönnu við meðalhita. Spældu nú eitt meðalstórt egg á pönnunni og kryddaðu til með salti og pipar, eða allt þar til rauðan er orðin mjúk og rennileg – í u.þ.b 3 – 4 mínútur.
Smyrðu þykku lagi af ricottaosti á ristaða brauðsneið í millitíðinni. Settu því næst spælda eggið ofan á ristuðu ricottaosta-brauðsneiðina og sáldraðu rauðum, möluðum piparflögum ofan á eggið. Kryddaðu til með salti og pipar eftir smekk og snæddu brauðsneiðina umsvifalaust!
Við ELSKUM BuzzFeed Food og bandaríska smáréttakokka!
Ricotta Toasts http://bzfd.it/1KOyCKe
Posted by BuzzFeed Food on Monday, September 28, 2015