KVENNABLAÐIÐ

Ofbeldi og kúgun í samböndum og samskiptum: Hvenær er það skaðlegt?

Þegar við hugsum um ofbeldi kemur líkamlegt ofbeldi yfirleitt fyrst upp í hugann. Ofbeldi getur þó verið margþætt og er gjarnan skipt upp í þrjá flokka: 1) líkamlegt ofbeldi, 2) andlegt ofbeldi og 3) kynferðislegt ofbeldi.

Hér á eftir koma nokkur dæmi um ofbeldi og/eða kúgun:

screenshot-www.landlaeknir.is 2015-10-07 08-35-16

Það er ekki nóg að vita hvernig gott samband er heldur þarf einnig að þekkja hvenær samband er orðið skaðlegt. Maður getur sjálfur lent í því að vera í skaðlegu sambandi eða átt vini sem eru í slíku.

Það er mikilvægt að þekkja bæði einkenni sem benda til þess að einstaklingur sé að verða fyrir ofbeldi eða kúgun og einkenni þess að einstaklingur sé að beita slíku.

En hvað ef vinur /vinkona beitir ofbeldi?

Það er ekki nóg að bregðast við og aðstoða þolandann, við þurfum að ganga lengra og aðstoða gerandann líka. Vissuð þið að flestir menn sem beita konur sínar heimilisofbeldi byrjuðu þann feril á unglingsárum? Með góðri hjálp má stöðva slíka þróun hjá ungu fólki. Það má heldur ekki gleyma því að konur geta beitt karlmenn ofbeldi, og það er ekki síður alvarlegt.

Stundum sýna sjónvarpsþættir og bíómyndir karlmenn sem verða fyrir ofbeldi en það er oft sett fram á skoplegan hátt, eins og það sé einhver skömm að verða fyrir slíku, eða þá að karlmennirnir eru sýndir eins og þeir séu alltaf tilbúnir til kynlífsathafna. Ekki láta blekkjast, prufið að snúa við hlutverkum karls og konu í slíku atriði og sjáið hvort það er ennþá fyndið.

Hvernig veit ég að einhver er að beita ofbeldi eða er beittur ofbeldi?

Sá sem beitir ofbeldi getur…

  • Notað hótanir eða ofbeldi til þess að leysa vandamál
  • Átt erfitt með að ráða við reiði eða vonbrigði
  • Missir stjórn á skapi sínu
  • Átt við vandamál í skóla
  • Verið óörugg/ur með sig, með lélegt sjálfstraust
  • Átt erfitt í samskiptum við aðra
  • Verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna
  • Átt erfitt með ræða málin (tala saman)

Sá sem er beittur ofbeldi getur…

  • Virst óttast kærustu/kærasta
  • Verið marin/n eða með klórför eða önnur merki um meiðsl sem ekki eru skýringar á.
  • Virst stjórnað af kærasta/kærustu, sem ákveður hvað á að gera, hvernig á að klæða sig, mála sig o.s.frv.
  • Afsakað hegðun kærasta/kærustu
  • Minnst á ofsafengið skap hins en gerir svo lítið úr því eða snýr því upp í grín
  • Misst áhuga á hlutum sem áður skiptu máli, svo sem áhugamálum eða að hitta vini sína
  • Skyndilega breytt útlit eða hegðun

Ofbeldi er oft stigvaxandi

Ofbeldi og kúgun í samböndum byrjar gjarnan smátt en vindur svo upp á sig. Ef ofbeldi eða kúgun endurtekur sig eru nánast engar líkur á að það muni allt í einu hætta, nema að viðkomandi fái hjálp hjá sérfræðingum. Þess vegna þýðir ekki að bíða og vona að einhvern daginn geti maður gert kærustu/kærasta til geðs og þá muni hann eða hún ekki taka skapofsaköst eða beita ofbeldi eða hótunum.

Sá sem beitir ofbeldinu ber alltaf ábyrgð á því!

Sá sem verður fyrir ofbeldinu hefur ekki kallað það yfir sig.

Kúgun byrjar smátt og smátt og því getur oft verið erfitt að átta sig á því að hún eigi sér stað. Í byrjun er það kannski bara afbrýðisamur kærasti/kærasta. Kannski er það bara skemmtilegt fyrst að einhver þarfnist manns og sé að vernda mann. En svo fer það að þýða að maður getur ekki verið með vinum sínum af því að kærastinn/kærastan vill það ekki, eða finnst maður hanga of mikið með vinum sínum.

Hvar og hvenær gerist ofbeldið?

Ofbeldi og kúgun á sér gjarnan stað þegar engin vitni eru. Ungt fólk er hins vegar oft saman í hóp og þá getur verið að vinirnir verði vitni að skaðandi hegðun eða framkomu. Mikilvægt er að hafa hugrekki til þess að skipta sér af því ef mann grunar að vinur eða vinkona beiti ofbeldi eða verði fyrir því. Við getum ekki stjórnað því hvað aðrir gera en oft getur hjálparhönd skipt miklu máli.

Ungt fólk leitar oft frekar til vina sinna heldur en foreldra eða annarra fullorðinna og þess vegna er gott að vita hvað maður getur sagt eða gert.

Grein þessi birtist upprunalega á vef Landlæknis og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi: 

landlæknir

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!