Ógeðfellt nokk, en brátt verður hægt að hlaða niður farsímaviðbót sem gerir notendum kleift að gefa öðru fólki einkunn; rétt eins og um hótel, kvikmyndir, námskeið og aðra þjónustu væri að ræða.
Þessu greinir Washington Post frá, en appið sem bera mun nafni Peeple, kemur á almennan markað síðla í nóvember á þessu ári og gerir notendum kleift að gefa fólki einkunn allt frá einni og upp í fimm stjörnur; fyrrverandi makar, vinnufélagar, nágrannar og svo má áfram telja. Enginn er óhultur og ekki er hægt að óska þess að fjarlægja skráninguna. Þegar nafn viðkomandi hefur einu sinni verið skráð í kerfið er ekki hægt að afmá upplýsingarnar, nema með því einu að brjóta gegn notendaskilmálum. Ekki verður heldur hægt að eyða neikvæðum umsögnum, sem er einmitt það sem margir óttast.
Julia Cordray, önnur tveggja höfunda sem saman standa að baki hönnun Peeple farsímaviðbótarinnar, varði framleiðsluna í viðtali við Washington Post og sagðist þannig um eðlilega þjónustu vera að ræða:
Já, en fólk leggur mikla rannsóknarvinnu á sig þegar kaupa á þjónustu eða meta gæði tiltekinna tilboða. Af hverju ætti fólk ekki að geta óskað sambærilegra upplýsinga á öðrum sviðum lífsins; þeirri hlið sem snýr að samskiptum?
Sjálf er Julia með háskólagráðu í markaðsfræði og rekur tvær ráðningarskrifstofur og segir farsímaviðbót á borð við þessa sjálfsagða; að ekkert sé athugavert við að auglýsa eigið ágæti á netinu. Meðeigandi Juliu, Nicole McCullough leggur hins vegar til annað sjónarmið á vogarskálirnar sem vegur þungt; hin síðarnefnda er tveggja barna móðir sem segir foreldra og fjölskyldufólk geta haft talsverðan ávinning af því að vita hver er verðugur þess að starfa við barnagæslu, svo dæmi séu tekin.
Þær stöllur segja farsímaviðbótina gera talsverðar kröfur til notenda sinna og að heiðarlegrar svörunar sé krafist, en vakni grunur um einelti eða persónuníð verði viðkomandi útilokaður frá frekari notkun. Þá verða notendur að hafa náð 21 árs aldri, vera virkir á Facebook og allar umsagnir verður að skrifa undir fullu nafni.
Þá verður að lokum að staðfesta hvers eðlis kynnin eru og verður hægt að velja milli þriggja meginflokka: – Gegnum vinskap, starf eða í einkalífinu. Til þess að bæta viðkomandi í grunninn verður þá að gefa upp farsímanúmer viðkomandi, jákvæðar umsagnir birtast umsvifalaust en neikvæðar umsagnir fara gegnum 48 klukkustunda matsferli og er það gert til að útiloka ósannindi.
Frétt Washington Post má lesa HÉR en þá er ekkert annað en að bíða eftir útgáfu Peeple, sem væntanlegt er á markað í lok nóvember. Við krossum fingur!