Liðnir eru dagar þrúgandi umsóknarferlis upprennandi tónlistarfólks, sem áður barði taugaveiklað á dyr hjá útgefendum í þeirri von að fá verk sín útgefin. Netið hefur tekið yfir markaðinn og þannig er skapandi fólki mun auðveldara að kynna verk sín og koma tónlist sinni á framfæri en áður.
En aðgengi er ekki nóg, úthald og ákveðni þarf að fylgja. Það veit Aaron Ísak Berry, sem er sautján ára gamall Reykvíkingur og setti saman heila breiðskífu við skrifborðið heima á rúmum tveimur mánuðum, vopnaður gömlum „headphone míkrafóni” og fartölvu. Úr varð fyrsta útgáfa Aaron, sem ber nafnið Newly Found og inniheldur einar sjö R & B melódíur með þroskuðu yfirbragði sem sæmt gæti sér eldra og reyndara listafólki.
Sjálfur segir Aaron, sem er 17 ára gamall aðspurður að nafnið sé tilkomið vegna þess að hann sé enn að þreifa sig áfram: „Platan heitir Newly Found, því ég er svo nýbúinn að finna sjálfan mig í tónlistinni. Stefnan er að halda áfram að koma út góðri R & B tónlist ásamt HipHop og popptónlist. En ég er mest inni á R & B línunni.”
(grein heldur áfram)
Aaron valdi að gefa út breiðskífu sína gegnum Soundcloud þar sem hann vildi ná meiri spilun: „Ég valdi SoundCloud vegna þess að ég er að reyna að koma mér á framfæri og þar sem fáir þekkja tónlistina mína og vita hver ég er, fannst mér þetta besta leiðin, þó ég hafi verið með YouTube síðu í þó nokkurn tíma líka.”
Aaron segir einnig að þó markmiðið sé að sjálfsögðu að komast á launaðan samning, séu netmiðlarnir öflugt verkfæri: „Ég tel netmiðlana algjörlega vera vettvanginn til að koma sér á framfæri. Það eru nánast allir á netinu og allt efni; auglýsingar og fréttir ferðast hraðast þar, en langtímamarkmiðið sé auðvitað að geta selt tónlistina mína.”
(grein heldur áfram)
Eins og segir hér að ofan tók Aaron ekki langan tíma að setja breiðskífuna saman og gekk frá útgáfu á eigin fartölvu, en öfugt við það sem margir halda, eru það ekki alltaf dýrustu og nýjustu tækin sem duga best: „Ég sem öll lögin heima með gamla gamla headphone míkrafóninum mínum, en ég var í u.þ.b. tvo og hálfan mánuð að setja plötuna saman. Ég hef prófað alls konar míkrafóna en finnst sá gamli bestur!”
Eitt leiðir af öðru og þannig er Aaron þegar farinn að vinna að nýju efni, sem verður forvitnilegt að hlýða á – en þó breiðskífan Newly Found hafi rétt litið dagsins ljós, lofar byrjunin góðu: „Viðtökurnar hafa verið mjög góðar! Ég hef fengið mjög góð komment og nokkrir hafa sýnt áhuga á að vinna með mér að tónlist. Ég ráðlegg fólki sem er að stíga sín fyrstu skref að vera ekki feimið við að dreifa tónlistinni sinni, deila með öðrum og „tagga” fólk í tenglum sem það setur á Facebook síðuna sína.”
YouTube síðu Aaron má nálgast HÉR en hér er SoundCloud tengill á Newly Found: