Jæja, elskurnar, það er mikið að Frúin kemst að á vefnum. Þær eru svo iðnar, stúlkurnar á ritstjórn að Frúin varð útundan í nokkra daga. Það er sosem í lagi, Frúin dundaði bara á meðan. Spreyjaði nokkrar glerkrukkur og svona. Enda að koma jól. Eða það segja þessar útlensku alla vega á Pinterest og ekki ljúga þær, dömurnar.
Alla vega, hér veður allt í tómum glerkrukkum og sumar eru svo ægifagrar í laginu að Frúin hreinlega neitar að farga þeim. Sama hvað bóndinn segir! Glerkrukkurnar fara ekki út í sorphirðu; Frúin sefur með nokkrar þeirra undir gaflinum og gælir við þær þegar allir eru farnir til vinnu. Já! Frúin gælir við glerkrukkur, litlu molarnir mínir!
Hér er komið dásamlegt glerkrukkuverkefni sem á eftir að sóma sér vel úti í gluggakistu þegar myrkra tekur; allt sem til þarf er vöndull af gömlum dagblöðum, ágætt teppalímband (eða annað vænt og þykkt iðnaðarmannalímband), skurðhnífur og svo sprey í ákjósanlegum litum.
#1 – Mótívið valið með teppalímbandi
Byrjið á því að þrífa glerkrukkuna vel og þurrka. Leggið límbandið yfir krukkuna og gangið úr skugga um að engar loftbólur hafi myndast undir yfirborðinu. Teiknið upp ákjósanlegt mótív – skerið varlega eftir línunum.
#2 – Flettið límbandinu af
Farið varlega með dúkahnífinn, sem er flugbeittur. Flettið límbandinu af krukkunni, svo mótívið eitt standi eftir. Munið að límbandsmótívið fer af krukkunni að lokum; en spreyjinu (eða málningunni) er úðað vel yfir alla krukkuna, meðan á ferlinu stendur.
#3 – Spreyjið nú glerkrukkuna
Ágætt er að notast við uppþvottahanska meðan á litunarferlinu stendur; til að forða slysi og svo einnig til að verja húðina. Spreyjið í öruggri fjarlægð til að forðast að liturinn leki niður glerkrukkuna – jafnt yfir allt glerið. Hér hefur samanvöðlaðri dagblaðarúllu verið stungið niður í krukkuna sjálfa, til að ná jöfnu taki á öllu yfirborðinu.
#4 – Látið standa til þerris
Að lokum, þegar spreyjið hefur þornað og krukkan hefur staðið til þerris á þurrum og hlýjum stað í u.þ.b. 2 klst – er loks óhætt að fletta sjálfu mótívinu af. Hér má sjá hvernig hjartað myndar lítinn glugga í krukkuna, sem hefur verið úðuð alla leið upp skrúfganginn – takið eftir litlu sporunum sem hafa verið dregin meðfram hjartanu!
#5 – Verið óhrædd við að nota liti!
Sama formið má endurtaka og fallegt getur verið að nýta krukkur af ýmsum stærðum og gerðum, hér hefur svartur orðið fyrir valinu en rauður getur líka verið falleg viðbót inn í haustið og veitt hlýjan yl. Sprittkertin eru dásamleg í krukkustjakana og gefa mildan bjarma gegnum hjartalaga gluggann!