Við vinkonurnar hérna í Noregi erum mikið fyrir föndrið! Eftir okkar vikulega kaffiboð heima hjá einni fannst okkur eins og það þyrfti að koma einhverju haustskrauti inn í íbúðirnar hjá okkur, þar sem það er vel farið að hausta hérna í Noregi.
Ég mundi þá eftir einhverju sem hentar fullkomnlega fyrir bæði haust og vetur. Þar sem við erum í landi grenitrjánna, finnast könglar á hverri gangstétt sem þú gengur. Hún Frú Sykurmoli var svo sniðug að hún skrifaði um hvíta köngla einu sinni þegar hún ákvað að láta ljós sitt skína.
Það var akkúrat það sem mig vantaði, hvíta köngla! Ég skal viðurkenna að ég valdi þá fallegustu í þetta verkefni og því urðu þeir bara fjórir, en ég geri þetta klárlega aftur og þá fleiri stykki. Þeir gefa húsinu klárlega það sem þeir ættu að gera, mikinn haustblæ og ég get ekki beðið eftir að það byrji að snjóa eftir að ég setti þessa inn á heimilið!
Aðferðina getið þið fundið hérna: KLÓRAÐIR KÖNGLAR
Það er nú ekki það erfiðasta að finna köngla þar sem ég bý, við hliðina á húsinu mínu er heill Narníuskógur sem hægt er að týnast í. Svo ég skellti kaffi í ferðabollann, litla lukkutröllinu mínu í regngallann og hélt af stað í ferðalag.
Ég skal nú viðurkenna það að litla stelpan mín var talsvert duglegri en ég að týna könglana í litlu töskuna sem hún hélt af stað með. Hún leit svolítið eins og týnd Dóra landkönnuður í öllum þessum trjám svo mamman þurfti á allri sinni einbeitingu að halda til að geta haft auga með barninu.
Þegar barnið var komið í svefn dró ég fram krukkuna mína sem þið kannist örugglega flest við sem Mason Jar. Þar sem ég átti aðeins einhverjar risastórar fötur og múrsteinn er kannski ekki það fyrsta sem þú finnur á heimilinu, ákvað ég að notast við krukku, þar sem könglarnir mínir voru hvort eð er svo smáir að krukka dugði í þetta skiptið.
Svo skellti ég klórnum ofan í ásamt því að finna eitthvað þungt til að halda þeim ofan í klórnum allan tímann.
Ég var það heppin að ég fann skál sem vann verkið eins og „bandarískur hermaður að verja landið sitt.”” Svo skellti ég krukkunni út á svalir, þar sem klórlykt er eitthvað sem þú vilt ekki að heimilið þitt angi af.
Ég lét könglana vera yfir nótt og fram eftir degi. Veiddi síðan hvern köngulinn á fætur öðrum ofan á gamalt handklæði sem við erum löngu hætt að nota og ég er farin að klippa niður í tuskur.
Ég lét þó könglana vera í smá stund út á svölum á handklæðinu svo að lyktin af klórnum yrði ekki jafn sterk og þegar þeir kæmu inn í íbúðina. Svo var það biðin langa; biðin eftir því að að þeir myndu þorna.
Könglarnir taka alveg sinn tíma í að þorna, eða um tvo til þrjá daga í mínu tilfelli. En biðin var klárlega þess virði, þeir eru æðislegir!
Ég hafði reyndar algjörlega gleymt því hvar ég ætti að setja þá svo að ég tók á það ráð að víra þá við kertastjakann okkar.
Þeir gefa kertastjakanum klárlega nýtt líf, en það þarf þó kannski aðeins fleiri til þess að hafa hann eins og ég vil, svo ég legg af stað á ný út í skóg að leita að könglum til að klóra. Nú er það bara að bíða eftir snjónum!
Hafið samt í huga að könglarnir verða nú ekki alveg snjóhvítir en þeir verða talsvert ljósari og hvítari heldur en venjulegir könglar.