Körlum reynist oft erfiðara en konum að ræða opinskátt um geðraskanir; umræðan er viðkvæm og eldfim en karlar glíma í ofanálag við alls kyns mýtur og gamlar kreddur um að þeir eigi að vera einbeittir, sterkir og við stjórnvölinn í tilfinningalífinu öllum stundum.
Því er enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að opna á þá umræðu sem snýr að einkennum kvíða- og þunglyndisraskana karla, en rannsóknir hafa leitt í ljós að ófáum karlmönnum þykir gífurlega erfitt að viðurkenna að þeir sýni augljós einkenni kvíða og / eða þunglyndis. Þannig sýndi nýleg könnun einnig fram á að karlmenn eru afar ólíklegir til að greina frá því að þeir hafi glímt við sjálfsvígshugsanir.
Þó mikið vatn hafi runnið til sjávar og óteljandi sigrar unnist í jafnréttisbaráttunni undanfarna áratugi, blasa þær skýlausu kröfur enn við ófáum körlum að þeir séu ekki fullorðnir karlar nema þeir geti sýnt af sér hörku og því er enn erfiðara fyrir karla að koma hreint til dyranna og greina frá því í hreinskilni að þeir glími við kvíða og þunglyndi.
Listinn sem sjá má hér að neðan er samantekt af svörum karla sem ljáðu AskMen viðhorf sín í nafnlausri könnun – þar sem spurt var hvað hinir sömu vildu að aðrir karlmenn vissu um eðli kvíða- og þunglyndisraskana.
Útdrátturinn sem sjá má hér að neðan, birtist nú hér í íslenskri útgáfu; en hér fara raunveruleg svör karla sem hafa tekist á við kvíða og þunglyndi með góðum árangri og miðla af reynslu sinni til annarra karla í sambærilegum sporum:
#1 – Þetta er heilbrigðisvandamál.
„Kvíði er sjúkdómur.“
#2 – Það er mikilvægt að opna á umræðuna um kvíða.
„Það er ALLT Í LAGI að upplifa þessar tilfinningar og það að langa til að ræða út um kvíðann er eðilegt og heilbrigt.”
#3 – Kvíðnir karlmenn eru álitnir „veiklyndir” – og það er mjög alvarlegt.
„Við, karlmenn, deilum ekki vandamálum okkar og líðan því við óttumst að umhverfið stimpli okkur sem veiklynda og varnarlausa einstaklinga. Margir karlmenn hafa fengið þau skilaboð frá barnæsku að við verðum alltaf að líta út fyrir að vera sterkir.
#4 – Breytingar á lífsstíl geta komið að gagni.
„Breyttu daglegu mynstri eins fljótt og þú getur. Breyttu venjum þínum – farðu í frí, horfðu á bíómynd, farðu á blint stefnumót. Finndu þér nýja vini. Vertu jákvæður.”
#5 – Ógætilegar athugasemdir geta oft eyðilagt möguleika á frekari stuðning.
„Uppgerðarleg samúð og það að segja hluti á borð við: „Hey, hristu þetta af þér”, eða: „Þetta lagast”, jafnvel: „Æ, góði, reyndu að fullorðnast! Þú ert svo óþroskaður ….” að ekki sé minnst á orðin: „Hristu niður í púnginn á þér” er ekki jafn gagnlegt og margir ætla. Þeir sem láta sér detta til hugar að láta álíka vitleysu út úr sér, ættu að hugsa sinn gang örlítið áður en orðin eru látin falla.
#6 – Ef þig langar að skilja hvað viðkomandi er að ganga í gegnum, reyndu þá að spyrja nærgætinna spurninga, sem einkennast af umhyggju en ekki dómhörku.
Hjálpaðu viðkomandi að leita svara við spurningum sem eru ekki dæmandi í eðli sínu. Í stað þess að spyrja: „Hvernig fórstu að því að klúðra þessu?” er vænlegra til árangurs að skoða hvernig má forðast að endurtaka sömu mistökin. Það er engin þörf á því að kafa ofan í fyrri mistök og dveljast í fortíðinni.
#7 – Geðraskanir á borð við kvíða geta heltekið einstaklinginn.
„Kvíði og þunglyndi geta ollið sársauka sem er viðvarandi allan sólarhringinn.“
#8 – Kvíði og þunglyndi fara ekki í manngreiningarálit.
„Þetta eru raunverulegar geðraskanir og allir geta orðið fyrir barðinu á kvíða og þunglyndI, óháð aldri og kyni. Það er enginn töfrarofi til sem slekkur á tilfinningunum. En það er hægt að leita hjálpar og veita hjálp við kvíða og þunglyndi.“
#9 – Kvíði getur haft mjög slævandi áhrif á dómgreindina.
„Kvíði er viðbjóðslegur vítahringur. Þegar kvíðakast hvolfist yfir viðkomandi, getur örsmá neikvæð hugsun, óvænt uppákoma eða klaufaleg samskipti nægt til að tendra bál í huga þess sem er kvíðinn og valda niðurrífandi líðan og þankagangi.“
#10 – Reglubundin meðferð getur dregið úr einkennum kvíða.
„Þetta eru eðlilegar, mannlegar tilfinningar. En til að njóta hjálpar er best að leita til fagmanns, sé staðan orðin svo slæm að viðkomandi hefur ekki lengur tök á eigin tilfinningum.“
#11 – Geðraskanir eru ekki ímyndun.
„Kvíði og þunglyndi er ekki eitthvað sem hellist yfir „veiklynt” fólk og það er ekki alltaf hægt að harka bara af sér! Það er allt í lagi og það er líka eðlilegt að tala um þær tilfinningar.“
#12 – Það er nauðsynlegt að bera kennsl á og ræða um einkennin.
„Það skiptir öllu máli hvernig viðkomandi tekst á við vandann. Þeir sem líða fyrir kvíðann í einrúmi en sýna engin einnkenni út á við eru oft þeir sem líða mestu kvalirnar. Karlmaður sem glímir við svefnörðugleika, á erfitt með einbeitingu og hefur ýmist aukna eða þverrandi matarlyst ætti þannig undantekningarlaust að leita til læknis eða fagfólks eftir ráðgjöf og stuðning, því þetta eru einkenni kvíða og þunglyndis.”
#13 – Enginn ætti að þurfa að skammast sín fyrir að vera kvíðinn eða þunglyndur.
„Kvíði og þunglyndi gera fólk varnarlaust; þú hefur enga stjórn og finnst þú vera berskjaldaður, hjálparvana og viðkvæmur. Okkur karlmönnum er í stöðugu sagt að við þurfum að vera sterkir og hafa fulla stjórn meðan sannleikurinn er sá að við getum varla haft okkur fram úr rúminu á morgnana. Bara það eitt að taka ákvörðun getur svipt okkur allri orku og einbeitingu sem við búum yfir. Þetta eitt getur þeytt okkur enn lengra niður á við, dýpra ofan í kvíðann og þunglyndið. Lærðu að biðja um hjáp og leitaðu eftir öxl til að halla þér upp að, því það eitt getur gert ferðalagið í átt að bata örlítið auðveldara.”
Á vefsíðu GEÐHJÁLPAR er að finna yfirgripsmikla fræðslu um úrræði við kvíða og þunglyndi: