KVENNABLAÐIÐ

Kendall Jenner (19) í líki súfragettu: „Konur eiga að nýta kosningarétt sinn!“

Kendall Jenner er umhugað um réttindi kvenna og brá sér þannig í líki súfragettu á dögunum, allt í þeim tilgangi að undirstrika mikilvægi þess að ungt fólk nýti kosningarétt sinn og þá sérstaklega ungar konur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Kendall ræðir pólitík á opinberum vettvangi, en þó almenningur eigi því að venjast að sjá stúlkuna trítla tískupallana milli þess sem hún rekur upp smástúlkuóp og setur stút á munninn í raunveruleikaseríunni KUWTK, leikur enginn vafi á að Kendall á sér fleiri áhugamál en þau sem snúa að þröngum gallabuxum og svimandi háum pinnahælum.

Í einnar mínútna löngum skets fyrir Rock The Vote klæðist hún þannig fatnaði líkum þeim sem súfragetturnar báru og ræðir þá baráttu sem konur þurftu að há til að öðlast kosningarétt í Bandaríkjunum einum á nítjándu öld.

„Við kjósum á hverjum einasta degi; við látum skoðanir okkar í ljós á samfélagsmiðlum og með kennimerkjum. En rétturinn til að kjósa hefur ekki alltaf verið svona einfaldur. Sérstaklega ekki fyrir konur.“

Kendall útskýrir þannig að árið 1849 hafi bandarískar konur hafið baráttuna fyrir sömu kosningaréttindum og þóttu sjálfsögð þegar karlar áttu í hlut.

„Þessar konur voru kallaðar súfragettur.“

Kendall er skorinorð í stuttu myndbrotinu og nefnir þannig súfragetturnar Susan B. Anthony og Elizabet Cady Stanton, sem skipulögðu baráttuherðferðir súfragettanna frá einu fylki til annars:

„Það var svo árið 1919 sem bandaríska þingið samþykkti breytingar á stjórnarskrá Bandaríkjanna en þann 26 ágúst 1920 var kosningaréttur kvenna í Bandaríkjunum bundinn í lög og konum loks gert kleift að kjósa.“

Þó Kendall vísi hér í bandaríska löggjöf er ekki erfitt að heimfæra orð hennar upp á íslenskar aðstæður, þar sem íslenskar konur yfir fertugt hlutu loks kosningarétt árið 19 júní 1915 og hafði barátta íslenskra kvenna þá staðið yfir frá árinu 1885.

Kendall klykkir að lokum út með orðunum:

„Vegna baráttu súfragettana og tilvistar þeirra, skiptir kyn kjósenda engu máli í dag. En það gerir atkvæði þitt hins vegar.“

Þróttmikil og hápólitísk ræða hjá ungri stúlku sem öllu þekktari er fyrir fegurð og fönguleika en hárbeittar, femínískar skoðanir – og ekki er um villst að ein af yngstu Jenner / Kardashiansystrum lætur sér fleira fyrir brjósti brenna en tískufatnað og þotulíferni – margur er knár þó hann sé smár!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!