KVENNABLAÐIÐ

Leiðist þér? Frábært!

Stundum er ég einmana. Hvort sem ég er innan um fólk eða ekki. Finn mig ekki tengda þeim. Og hætti að heyra hvað þau segja. Raddir þeirra breytast í skvaldur og hverfa brátt í rykmekki í hugsunum mínum. Ég sting af inn í heiminn minn sem enginn fær að sjá. Stundum er hann litríkur, bjartur og fallegur…en stundum er hann myrkur, ljótur og hryllilegur.

Það fer allt eftir því hvernig ég lít á sjálfa mig þann daginn. Hvort ég kýs að vera sjálfsörugg, klár og falleg…eða hvort ég vel að vera lítil, óörugg, feit og heimsk. Ég tala um að velja sér þessar tilfinningar, af ástæðu. Því það er gerlegt að stjórna þeim. Stundum er bara dálítið notalegt að fá að vera í svolítilli fýlu, við eigum rétt á því. Svo lengi sem við látum það ekki bitna á öðrum. Og rífum okkur upp á hnakkadrambinu í tíma.

Ég er í senn einfari og félagsvera. Mér þykir gott að hitta annað fólk, sérstaklega þegar ég er ekki einmana. Mér finnst nefnilega verra að vera einmana innan um fólk en þegar ég er ein. Ég er ekki alltaf einmana þegar ég er ein með sjálfri mér. Stundum kann ég nógu vel við sjálfa mig til að finnast ég, vera mér nægur félagsskapur. Og ég get fundið upp á ýmsu til að gera, sem ég hef aftur á móti engan áhuga á þegar mér líður illa af einsemd.

Ég minnist atriðis úr bíómynd, ekkert svakalega góðri bíómynd, en þessi setning festist svolítið á annars vel teflonhúðuðum heila mínum. Þar sitja tvær vinkonur saman og spjalla í trúnaði um ástarmálin eins og vinkonur gera oft. Önnur einhleyp en vonlaust ástfangin, hin nýgift og segir döpur og með hálfgerðum hryllingi: „Ég verð aldrei framar ein.“

Þörf mannsins til að vera nálægt öðru fólki er jafnmikil og þörfin til að vera einn með sjálfum sér. Ég held að nútíminn hafi með öllum sínum tækninýjungum, eyðilagt þessa tilfinningu og æ fleiri verða einmana á bak við tölvuskjái, með heyrnartólin á eyrunum.

Hversu margir njóta þess raunverulega að vera einir og sinna hugðarefnum sínum sem fela ekki í sér samskipti við annað fólk? Án þess að verða einmana? Þeir tímar sem við lifum nú eru uppfullir af dagskrá fyrir alla. Börn kunna varla að leika sér lengur, að dunda sér, það er orðið bráðnauðsynlegt að fylla alla daga af skipulögðum atburðum. Þetta er eins með fullorðið fólk. Hver sest niður með bók um miðjan dag eða hlustar á tónlist í friði og spekt? Án þess að fá samviskubit yfir því að vera að „gera ekkert.“

Ég er fullviss um að þetta sé hverri manneskju hollt , til að finna aftur kjarnann í sjálfri sér og halda honum gangandi. Við verðum að fylla á til að hafa eitthvað að gefa…og ekki síst fyrir okkur sjálf. Við týnumst annars í hversdagsleikanum þar sem sami endalausi hringurinn er farinn, dag eftir dag, og verkin eru aldrei búin. Tilgangslausar rútínur ef lífsins er ekki notið inn á milli.

Sonur minn segir mér oft að sér leiðist. Áður enn ég fór að spá í einmitt þessa hluti, svaraði ég honum með allskonar uppástungum um hvað hægt væri að gera. Einn daginn uppgötvaði ég það að það væri allt í lagi að leiðast. Og fór að svara honum ”en frábært!”. Þetta er nefnilega eðlileg tilfinning sem mannfólkinu virðist vera að takast að útrýma og auka í sömu andrá. Fyrir vikið finnst fólki, þá sérstaklega börnum og unglingum, ekkert vera skemmtilegt. Það er ekkert mótvægi ef þeim á aldrei að leiðast. Allir hlutir renna saman á endanum og gleði mannsins yfir að vera bara til, hverfur. Unga fólkið mun aldrei læra á að hlusta á sína innri rödd og kynnast sjálfu sér ef umhverfið er stútfullt af skemmtidagskrá handa því. Ungt fólk verður að fá rými til að hafa ofan af fyrir sér sjálft.

Þessi sami sonur minn á sínar stundir samt sem áður. Hann fer einn í göngutúra með myndavél. Yfirleitt kemur hann til baka með skrítnar hugdettur og heimspekilegar pælingar sem gaman er að spjalla um og velta fyrir sér. Þetta gerist bara þegar hann hefur fengið að ráfa um einn með sjálfum sér. Aldrei þegar dagurinn hefur verið fullur af tölvuleikjum, sjónvarpsglápi eða annarri dagskrá. Þetta eru þær stundir þar sem ég fæ að kynnast honum. Þegar hann hefur hreinsað hugann af illa matreiddu efni. Þarna glittir þá í soninn sem er svo gaman að spjalla við. Um eitthvað annað en vélmenni, tölvuleikjaheim og „Cartoon Network.“

Það er gott að eiga góða að, fjölskyldu og vini, en það jafnast ekki á við þá manneskju sem fylgir þér hvert sem þú ferð ævina á enda. Þú ert eina manneskjan sem mun ávallt vera til staðar fyrir þig.

Leiðist þér? En frábært! Þá hefurðu tækifæri og tíma til að kynnast sjálfum þér sem einstaklingi og hvettu fólkið þitt til þess sama. Leyfðu börnunum að láta sér leiðast, það kemur að því að þau finna sér eitthvað að gera.

En þá eru þau líka búin að eyða dágóðum tíma í allskonar pælingar sem gera ekkert nema þroska þau.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!