Vínber eru oftlega nefnd fæða guðanna og til eru þeir sem segja vínberin veita líkamanum aukinn styrk til að berjast móti krabbameini; vínberin eru sögð styrkjandi fyrir hjartað og jafnvel geta bægt á brott vægum einkennum sykursýki. Hvað sem til er í því og staðhæfingum skyldi alltaf taka með ákveðnum fyrirvara, eru vínberin rík af próteini og trefjum, C- og A-vítamíni sem og pótassíum, járni og í vínberjum er líka að finna örlítið magn af fólatsýru.
Vínberin eru hitaeininarík; þannig eru 104 kaloríur í einum bolla en hafa má í huga að líkaminn þarfnast næringar að morgni dags til að geta tekist á við verkefni dagsins. Ég frysti oftlega vínber sem ég hef skorið í tvennt, geymi í frystipoka og stundum læði ég vínberjum út í morgunboostinn.
Þá eru perur sneisafullar af trefjum, steinefnum og B-vítamíni og eru að sögn ágæt fæðuviðbót sem styrkir hár, neglur og hörund – en mér þykir ágætt að raspa niður væna peru af og til og setja út í blandarann með fersku spínati (eða frosnu) og þeyta mér af stað inn í daginn; í bókstaflegri merkingu.
Næringarefnin ráða ferðinni þegar heilnæmir morgundrykkir eru þeyttir í blandaranum og þannig eru tilbrigðin óendanleg. Ég notast þannig oft við rucolakál, sem ég skipti út fyrir spínatið til að auka á næringarinnihaldið. Rucolakál er þannig sneisafullt af A-, C- og K-vítamíni og hentar ljómandi vel í græna drykki. Í þessa uppskrift fer einnig rifin, fersk engiferrót (sem mér þykir allra meina bót) og svo blessuð kókosmjólkin sem ég þynnti út með vatni í þetta skiptið. Allt til að mýkja drykkinn og bragðbæta innihaldið.
U P P S K R I F T:
1 bolli kókosmjólk
½ bolli vatn (eða meira, allt eftir smekk)
1 bolli frosið (eða ferskt) ruccolakál
1 bolli steinlaus vínber, skorin til helminga (mega vera frosin)
1 vel þroskuð pera; afhýdd og fínrifin með grænmetisraspi
1 vel þroskað avókadó – fínsaxað
Safi úr einum limeávexti (gott er að nota sítruspressu)
Hnífsoddur af vanillufræjum
L E I Ð B E I N I N G A R:
Byrjið á því að setja kókosmjólkina, vatnið, lime-safann og ruccolakálið í blandarann. Þeytið vel þar til blandan er orðin áferðarfalleg og mjúk og engir kekkir sitja eftir í kálinu. Bætið nú smátt skornu avókadó, rifinni perunni og hnífsoddi af vanillufræjum og aldinkjötinu úr limeávextinum (valkvætt) í blandarann og þeytið vel saman.