KVENNABLAÐIÐ

Hið raunverulega Pinterest!

Flestallar húsmæður hafa örugglega flett í gegnum allar húsgagnavefsíður sem hægt er að finna á veraldarvefnum, með stjörnur í augunum og músina að vopni. Raunveruleikinn stoppar síðan þegar komið er að því að borga, áður en þú veist af ertu komin með hluti í körfuna upp á 130.000 krónur og flest af því eru kertastjakar eða þriggja fóta hringborð.

Ég hef lent í þessari stöðu svo mörgum sinnum að ég var að gefast upp á því að ég gæti gert heimili mitt að draumaheimilinu sem ég sá alltaf í blöðunum. Þangað til að ég fann síðuna PINTEREST!

206321226648511045_dPgw5m6I

Fyrst um sinn virtist þessi síða vera algjör draumur í dós, það er enginn endir á möguleikunum sem hægt að gera með hjálp síðunnar, eða það fannst mér. Þangað til að innkaupalistinn fór að slefa hægt og hljótt saman í sömu upphæð og þegar ég var að versla mér húsgögn á netinu, nema í staðinn fyrir borð og stóla voru þetta hlutir á við límbyssu, glimmer og kraftpappír ásamt nokkrum ferðum í Góða Hirðinn til að finna nýtt fórnarlamb Pinterest-tilrauna.

Jæja, hvað með það. Ég ætlaði mér stóra hluti með þessa hluti og hafði enga þolinmæði í neina bið. Ég leitaði og leitaði, með límbyssuna í sambandi, tilbúna til þess að líma einhverja hluti saman. Og viti menn, Guð hefur heyrt mínar bænir þar sem ég rakst á þennan ótrúlega sæta kökustand gerðan úr dóta-risaeðlu og disk. Hvað sem til myndi þurfa, ég þurfti þennan stand heima hjá mér! Svo ég byrjaði á því að skoða hvað ég þurfti; það var risaeðla, það var límbyssan góða sem ég var nýbúin að splæsa í (fór nú samt í IKEA þar sem ég vissi að ég gæti nú ekki gert greyið greiðslukortinu það ef eitthvað af þessu myndi nú misheppnast).

Þessi risaeðla er ekki auðfundin, þar sem hún þarf að vera mjúk að innan svo þú getur afhausað hana og límt diskinnpintereees á milli. Já, ég meina ekkert mál, hnífur, lím, risaeðlan afhausuð, diskur og sprey-málning. Getur eitthvað farið úrskeiðis með þessum upplýsingum?

Við getum hlaupið yfir kaffitímann þar sem risaeðlan mín átti sko að fá að skína. Þessi risaeðla hélt engum kökum uppi og leit út fyrir að vera nýkomin af busaballi MS. Hún féll það oft í gólfið að hún er ekki einu sinni þess virði að fá mynd af sér á Instagram-inu mínu. Í bræði minni yfir því að mér hafi mistekist þessi frábæra tilraun, ákvað ég að reyna á YouTube.

Og þar fann ég Rob! Rob er með þætti sem kallast Man vs. Pin þar sem hann prófar ýmsa hluti sem hann finnur á Pinterest til þess að sjá hvort að föndrið muni virka. Viti menn, hann tók risaeðluna mína! Þar hélt ég að ég væri búin að sanna mitt mál, að þessi risaeðla myndi takast. En Rob lenti í því  nákvæmlega sama og ég, risaeðlan hans gerði ekkert það sem hún átti að gera og á endanum ákvað hann að líma hana við borðið.

Að því sögðu mæli ég með því að þú gerir smá rannsóknarvinnu áður en þú ferð og missir vitið í föndurbúðinni, því að þú fannst einhverja frábæra heimagerða skál sem þig langar að eiga sem punt á stofuborðinu heima.

En ég held nú samt áfram á Pinterest og mun ekki stoppa í föndurbúðinni. Ég held að ég reyni nú frekar að finna einhverjar sannanir fyrir því að hluturinn sem ég ætla mér að búa til muni fá allar mömmunar sem koma í kaffi – missa vatnið!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!