Mark Zuckerberg hefur loks staðfest að samskiptamiðillinn tekur DISLIKE hnapp í notkun innan tíðar; hnapp sem ætlað er að lýsa ýmist vanþóknun eða samúð, þar sem ekki sé alltaf við hæfi að lýsa yfir velþóknun þegar erfiðar stöðuuppfærslur eru birtar á Facebook.
Þannig tilkynnti Zuckerberg sjálfur um þróun DISLIKE eða SAMÚÐAR-hnappsins sem er í prófun núna hjá Facebook:
„Notendur hafa margsinnis látið í ljós hreina óánægju vegna þess að DISLIKE hnappinn er hvergi að finna á Facebook og umræðan er alls ekki ný af nálinni. Reyndar hefur umræðan legið í loftinu í mörg ár og því er stór dagur runninn upp, því ég get loks sagt opinberlega að við erum að vinna að slíkum hnappi og að við erum ansi nærri því að hefja prófanir á DISLIKE hnappi.“
Við sama tækifæri sagði Zuckerberg einnig að talsverð þróunarvinna lægi að baki hnappinum, sem leyfir notendum að láta aðrar tilfinningar en beina velþóknun í ljós – þar sem Facebook væri mikið í mun að snúa ekki samskiptamiðlinum í vettvang eineltis og útilokunar, þar sem hægt yrði að kjósa stöðuuppfærslur og gefa þeim jákvæða eða neikvæða einkunn:
„Það er ekki slíkt samfélag sem við viljum hanna: Enginn vill fara gegnum það ferli að skrifa persónulega stöðuuppfærslu sem er mikilvæg í augum notandans og verða svo fyrir þeirri hörmung að allir skjóti orðin niður með DISLIKE hnappinum.“
Þess í stað sagði hann að nýji möguleikinn muni gera fólki kleift að votta vinum sínum á Facebook samúð eða hluttekningu og undirstrikaði þannig þá staðreynd sem margir notendur miðilsins standa oft frammi fyrir:
„Ef viðkomandi er að deila erfiðum fréttum á Facebook, eða greinir frá einhverju sem er hreint út sagt átakafullt, er ekki alltaf viðeigandi að líka við póstinn. Stundum er tilhugsunin ein hreinlega óviðeigandi.“