Amber Rose lætur engan slá sig út af laginu, ekki einu sinni sjálfan Kanye West sem hélt því fram að hann hefði þurft að taka þrjátíu sturtur eftir sambandsslit þeirra; áður en Kim Kardashian einu sinni gaut auga til tilvonandi eiginmanns síns.
Amber, sem er beinskeytt og opinská, hefur þannig opinberlega gagnrýnt það tvöfalda siðgæði sem ríkir í kynferðismálum og hallar á réttindi kvenna. Gott betur en það, stúlkan hefur lagt á ráðin og hyggst ganga í nafni allra þeirra kvenna sem hafa verið skammgerðar fyrir það eitt að vera kynferðislega frjálsar.
Það er rétt, Amber Rose efnir til DRUSLUGÖNGU í Los Angeles á næstu dögum. Uppselt er á viðburðinn og er biðlisti ógnarlangur, en ágóði af sölu aðgöngumiða mun meðal annars notaður til að fjármagna HIV skimanir, fræðslu og stuðning fyrir þær konur sem þola hafa mátt háðyrði – jafnvel fyrir það eitt að sofa hjá karlmanni utan hjónabands, að ótöldum styrkjum til hjálpar reksturs stuðningshópa fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis.
Sjálf mætti Amber ásamt nánustu vinkonu sinni, Blac Chyna á MTV verðlaunahátíðina, ílkæddar fatnaði sem á stóðu áletranirnar HÓRA og GULLGRAFARI, DRUSLA og TÍK sem ítrekar málstað þeirra; að berjast fyrir kynfrelsi kvenna og réttinum til að njóta frjálsra ásta án þess að eiga harðan dóm samfélagsins á hættu.
Drusluganga Amber Rose verður farin í október í Los Angeles, en hér má sjá hárbeitta og hrikalega fyndna kynningarstiklu sem Amber, í samvinnu við Funny or Die, setti í loftið fyrir skömmu og ber einfaldlega heitið NO WALK OF SHAME: