KVENNABLAÐIÐ

GIVENCHY S/S16: Fisléttar blúndur og svífandi svartar síðbuxur á tískuviku

Franska hátískuhúsið GIVENCHY kynnti vor- og sumarlínuna 2016 í fyrsta sinn á tískuviku í New York þetta árið, en sýningin, sem haldin var til heiðurs fórnarlamba 11 september árásanna, fór fram á Manhattan og var opin almenningi.

Yfirþyrmandi tilfinningaflóð, svartar blúndur og snjóhvítt silki; fáir viðburðir í heimi hátískunnar þetta ársmisserið hafa vakið jafn mikla athygli og eftirvæntingu, en þetta mun einnig vera tíunda starfsár Riccardo Tisci, sem er aðalhönnuður GIVENCHY. Ástæða þess að hátískuhúsið mun hafa valið að kynna vor- og sumarlínu næsta árs í New York er fyrirhuguð opnun GIVENCHY verslunar á Manhattan.

Lína Tisci olli engum vonbrigðum, en meðal þeirra sem gengu pallana var Kendall Jenner og svo undirfatafyrirsætan Candice, sem þekktust er fyrir að kynna fatnað Victoria Secret, en sviðsmyndin sem var í flóknari kantinum olli svo því að tvær fyrirsætur – þar á meðal Candice, runnu til á hálu gólfinu sem voru alsett vörupöllum og flaug í bókstaflegri merkingu beint á höfuðið.

Rómantísk útstilling með háskafullu yfirbragði; tónlistarmenn með saxafóna sem frumfluttu tónverk af háum stillönsum, en meðal gesta mátti sjá Juliu Roberts, Christinu Ricci, Liv Tyler, Pedro Almodovar, Nicki Minaj og að sjálfsögðu þau Kim og Kanye. Þá eru ótaldir tískumógúlar New York borgar; þeir Alexander Wang, Michael Kors, Tory Burch og Joseph Altuzarra, sem allir báru sýninguna augum frá áhorfendapöllunum.  

Með vor- og sumarlínu næsta árs þykir Tisci hafa vottað fórnarlömbum árásanna í New York þann 11 september auðmjúka virðingu sína, með látlausri og tímalausri tískulínu – samtímis því sem tíu ára starfsafmæli hans virðist marka ákveðna yfirferð sem lýsir vel því ferðalagi sem hönnuðurinn hefur lagt á hendur sér fyrir tískuhúsið. Kvenlegir konstrastar sem Tisci spilar djarflega fram móti karlmannlegum styrk vakti einnig aðdáun og athygli gagnrýnenda; snæhvítar blúndur sem fléttast inn í látlaust silkimynstur, svífandi síðbuxur og látlausar satínyfirhafnir sem gefa línunni munúðarfullt yfirbragð; GIVENCHY er sannarlega meðal þeirra fremstu á sviði hátísku.

Sjálf tónlistin endurómaði ólíkum menningarbrotum og sagðist Tisci þannig hafa viljað umfaðma ólík trúarbrot.

Mig langaði með þessu móti að votta öllum trúarbrögðum heims virðingu mína. Þess vegna var tónlistin sem ómaði á pöllunum brot úr ólíkum trúarstefum víðsvegar að úr heiminum.  

Hér má sjá alla sýninguna sem fram fór á Manhattan þann 11 september og sýnir vor- og sumarlínu GIVENCHY hátískuhússins árið 2016: