KVENNABLAÐIÐ

DESIGUAL SS16: Leðurjakkar með frumbyggjamynstri, melódískir hanakambar og geómetrísk kjólamynstur #NYFW

Litagleði og djörfung stórborgarlífsins virtist yfirskrift spænska tískuhússins Desigual þegar vor- og sumarlínan árið 2016 var frumsýnd á tískuvikunni í New York nú í vikunni. Desigual, sem er spænskt hátískuhús, á rætur að rekja til listaborgarinnar Barcelona og bar línan þess skýr merki að vera hönnuð með djarfar og dugmiklar, önnum kafnar nútímakonur í huga.

Vor- og sumarlínan sem Desigual frumsýndi samanstóð í raun af þremur ólíkum línum; kæruleysislegar flíkur fyrir þá sérvitru með sportlegu ívafi, munúðarfulla kjólalínu fyrir þenkjandi framakonur og að endingu tígurlega tælandi klæðnað sem hæfir önnum köfnum nútímakonum. En þrátt fyrir stórbrotnar andstæður myndar línan skemmtilega og litríka, lifandi heild, sem hrífandi er að bera augum.

Vor- og sumarlína Desigual verður því í öllum regnbogans litum á komandi ári, hæfir nútímakonum á öllum aldri – blúndum skreydd hálsmál með silkiborðum, gullfalleg og geómetrísk kjólamynstur, mótorhjólajakkar með frumbyggjamynstri og heyrnartól með hanakambi. Þetta og fleira til mátti bera augum á sýningu Desigual nú í vikunni á pöllum tískuvikunnar í New York, en sýninguna sjálfa má sjá í heild sinni hér að neðan.

Skemmtilegt verður vorið hjá spænska hátískuhúsinu DESIGUAL á komandi ári:

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!