Þessi er heimalagaður; á uppruna sinn að rekja til galdraeldhúss ritstjóra og er þrælprófaður í bak og fyrir. Stundum er einfaldlega gaman að láta hráefnin í ávaxtakörfunni og ísskápnum ráða ferðinni og ekki er verra ef ákveðið hugrekki fylgir; þorið til að bæta örlitlu kryddi í þann græna á mánudagsmorgni.
Hressilega kryddaður og suðrænn, íðilgrænn ávaxtaboost sem gæðir haustið líflegum blæ – en uppskriftin hér að neðan dugar í tvö sæmilega stór, upphá glös. Ef ætlunin er að laga bara boost fyrir einn – má með góðu móti helminga uppskriftina, sem hentar annars vel fyrir tvo í morgunsárið.
U P P S K R I F T:
1 stórt, vel þroskað mangó (gullinleitt að lit, smátt skorið og afhýtt)
1 bolli grænkál (spínat, ruccula, grænt kál að eigin vali)
1 bolli ananasbitar
1 nýkreistur limeávöxtur – aldinkjöt og limesafi
2 bollar kókosvatn / kókosmjólk
5 cm bútur ferskrifin engiferrót
Hnífsoddur af kanel
Hnífsoddur af vanillufræjum
Hnífsoddur af fínmöluðum chili pipar
L E I Ð B E I N I N G A R:
Byrjið á því að setja kókosvatn / kókosmjólk, spínat og nýkreist lime-aldinkjöt og lime-safann í blandarann. Hrærið vel saman og stöðvið svo blandarann; bætið mangó, ananas, fínrifnum, ferskum engifer og kanel, vanillubaunum og chili pipar í blandarann. Hrærið vel saman. Ef drykkurinn er of þéttur í sér, má þynna út blönduna með vatni.
Kryddið rífur vel í hálsinn en sefar kvef og hósta – farið með gát þegar magnið er ákvarðað.
Þessi uppskrift hentar fyrir tvo – en helminga má uppskriftina fyrir einn.
ATH: Mjög gott er að frysta spínat / grænkál / grænt kál að eigin vali í litlum frystipokum og smella í græna drykkinn að morgni. Þannig inniheldur 1 bolli af þéttpökkuðu, frosnu spínati u.þ.b. sexfalt magn af Magnesíum ef tekið er mið af fersku spínati. Hafið þetta í huga, ef ætlunin er að auka á bætiefnainntökuna.