Íris Björk Tanya Jónsdóttir er svo sannarlega kona með reynslu og drifkraft. Hún hefur starfað við að hanna og byggja hús og einstaka verslanir og einnig átti hún verslunina GK Reykjavík í nokkur ár. Um skeið starfaði Íris sem blaðamaður á DV og Pressunni en þar sá hún um lífstíls- og hönnunartengd verkefni.
Einnig er hún mikil fjölskyldukona og á hún þrjár dætur, tvö barnabörn, tengdason og kærasta sem hún hefur alla heimsins ástríðu fyrir.
En ástríða hennar nær einnig yfir alla hönnun þar sem ímyndunaraflið fær lausan tauminn, þar með talið skartgripahönnun. Hún er nefnilega konan á bak við Vera Design, sem er íslensk hönnun sem státar af gullfallegu og tímalausu skarti sem hannað er í samráði við gullsmiðinn Guðbjartur Þorleifsson.
Samkvæmt Írisi var það hönnun Guðbjarts sem kveikti áhuga hennar á skartgripahönnun:
„Ég fékk fyrst áhuga á skartgripum þegar ég fékk trúararmbandið að gjöf sem er eftir Guðbjart Þorleifsson fyrir c.a. 15 árum síðan. Þá hugsaði ég með mér að þetta armband væri eitthvað sérstakt. Ég var mikið spurð út í armbandið og það var greinilegt að það voru ansi margir sem heilluðust af því. Í gegnum árin hugsaði ég oft hvað það væri nú gaman að gera eitthvað meira með þessa fallegu hönnun. Skömmu eftir að ég eignaðist armbandið komst ég að því að hönnuðurinn og gullsmiðurinn Guðbjartur Þorleifsson er tengdapabbi systur minnar. Systir mín kom einnig að hönnun armbandsins og því þykir mér ennþá vænna um það. Síðar keypti ég hönnun hans og hef verið að stækka línuna smátt og smátt.“
Hefur hönnun Guðbjarts einnig verið mesti innblásturinn á bakvið Vera Design.
„Hann hefur kennt mér margt og við erum miklir félagar og mér þykir dýrmætt að fá að tilsögn frá svo merkum listamanni eins og hann er. Tímalaus hönnun sem erfist á milli kynslóða er mitt mottó í línu minni.“
Þegar ég forvitnast um það hvaðan nafnið sé komið segir hún að það hafi komið upp úr þurru. Hún vildi bara hafa alþjóðlegt nafn sem væri auðvelt að bera fram þar sem hún stefnir á erlendan markað. Einnig er hægt að túlka orðið á margvíslegan hátt, s.s. að vera, vera (andi) eða jafnvel „komin til að vera“.
Skartið hefur einnig orðið innblástur að annars konar hönnun hjá Írisi en hún hefu hannað útfararsett með táknunum af Infinity armbandinu sem eru saumuð í sængur og koddaverið með gylltum þræði. Táknin eru 7 kristin trúartákn sem standa fyrir upphafinu og endinum, síðustu kvöldmáltíðinni, krossinum, fiskinum (sem var leynitákn kristinna manna hér á árum áður), trú, von, kærleika og heilögum anda. Íris segir útfarasettin hafa vakið mikla eftirtekt og hafa nokkrir prestar komið að máli við hana og dásamað þessa hönnun en það þykir henni afar vænt um.
Það ráð sem Íris vill gefa konum sem eru í svipuðum hugleiðingum, þ.e.a.s vilja hanna eigin skartgripalínu er að reyna ekki að elta aðra hönnuði og heldur að skapa eigin stíl.
„En það má ekki gleyma að það er engin að finna upp hjólið hér og það má ekki móðgast þó svo að einhver annar sé að búa til svipaða vöru og þú.“
En fyrirtæki er fyrirtæki, sama hvort um hönnun eða annað er að ræða. Samkvæmt Írisi er það skemmtilegasta við slíkan fyrirtækjarekstur að byggja eitthvað upp frá grunni og fá að sjá það blómstra hægt og rólega. Helsti gallinn er þó að þú ert ALDREI í fríi.
„Hausinn er alltaf á fullu en ég sé um allt frá A-Ö sjálf og það getur reynt á en samt er það gaman þegar vel tekst upp. Mistökin eru bara til að læra af þeim og ég er ekkert feimin við að viðurkenna þau ef þau verða.“
En Íris heldur ótrauð áfram. Í náinni framtíð mun hún kynna nýja barnavöru sem var að koma í hús og síðan eru mjög spennandi tímar framundan með samstarfi Veru Design og Icelandair Saga Shop.
„Ég er búin að vera meira og minna erlendis í allt sumar að kynna Veru Design meðal annars og er margt spennandi í pípunum. Ég er komin til að „VERA“.