Mig langar að segja ykkur frá syni mínum Ingimari. Dásamlegum dreng sem á allan heiminn í höndum sér. Hann er um það bil að verða 16 ára og hann er einhverfur. Saga hans á kannski eftir að veita vonlausum von og ef svo er, þá er tilganginum með þessum pistli náð.
Hann var alla tíð álitinn svolítið skrítinn, á eftir jafnöldrum sínum í þroska en skemmtilegur og fyndinn strákur sem öllum fannst gott að umgangast. Var vinsæll hjá fullorðnum en síður hjá öðrum krökkum. Það kom oft fyrir að hann kom heim með glóðarauga eða sögu um barsmíðar og hrekki. Hann var góðhjartaður og tilvalið fórnarlamb.
Hann átti ekki gott með að læra og þegar hann fékk loksins einhverfu greininguna 12 ára gamall, kunni hann hvorki að lesa né skrifa, kunni hvorki á klukku né peninga. En hann var rosalega flinkur í mörgu öðru. Listamaður með blýanta og penna og ótrúlega hugvitssamur og hafði mikið og gott verkvit.
Okkur var tjáð að hann mundi líklegast aldrei klára grunnskóla og þyrfti mjög sennilega aðstoð með alla hluti á fullorðinsaldri. Þegar þarna var komið var hann búinn að vera með lestrarhefti fyrir 6 ára börn í 6 ár og fékk að sofa eins og honum lysti í námsverinu þar sem hann var öllu jöfnu.
Við fluttum þetta vor inn í Hafnarfjörð og næsta haust byrjaði hann í sérdeild Öldutúnsskóla. Þar var honum loksins kennt að lesa og hann lærði það fljótt að maður sefur ekki í skólanum enda var bara alltof gaman til að gera það. Þarna leið honum vel og hann eignaðist vini í fyrsta skipti á ævinni.
Ég verð kennurum hans þar ævinlega þakklát fyrir að koma honum á rétt ról og samnemendum hans fyrir taka honum opnum örmum.
Þarna var hann í tvö ár en vorið 2014 bauðst okkur alltof gott tækifæri til að sleppa því. Að flytja til Noregs. Maðurinn minn var þar með vinnu og ég hafði heyrt að skólakerfið þar væri vinveittara einhverfum einstaklingum og ég var með tvo.
Báðir drengirnir mínir byrjuðu í skóla fyrir ári síðan hér í Noregi en þar sem þeir voru ekki í sama aldursflokknum, þá voru þeir sitt í hvorum skólanum. Hér úti er barnaskóli upp í 7. bekk og unglingaskóli annars staðar fyrir 8.-10. bekkinga. Sveitarfélagið réði yndislegan íslenskan kennara til að hjálpa þeim að komast inn í málið og aðstoða þá við daglegt líf í skólunum.
Ingimar fékk næstum því að velja hvað hann ætti að læra en hér er komið til móts við nemendur, fundið út hvar áhugasvið þeirra liggur og námið fært nær því sem þeim langar að læra í framtíðinni. Þar sem hann er mikill verkmaður, elskar allskonar handverk og grufla í vélum, tækjum og tólum, var hann 3 daga í viku í skólanum en hina 2 í Smia. Smia er smiðja sem sveitarfélagið rekur fyrir allra skólana innan þess, fyrir nemendur sem höndla illa venjulegt nám eða eiga við einhverja erfiðleika að etja. Þarna naut hann sín. Hann var kominn á rétta hillu.
Upp úr áramótunum varð ég vör við undur og stórvirki. Ingimar var farinn að gera gott betur en að stauta sig áfram, hann las! Íslensku og ensku og rembdist eins og rjúpa við staur að lesa norskuna, sem er honum erfiðari. Hann hefur nefnilega ekki dönsku grunninn sem allir aðrir Íslendingar hafa.
Við vorum með íslensku greiningarnar sem þýddar voru á ensku og norsku til stuðnings þennan veturinn en ljóst var að þeir þyrftu báðir að fara í norska greiningu eins fljótt og mögulegt væri. Haldnir voru allskonar fundir með okkur foreldrunum, félagsþjónustu fatlaðra, kennurum, lækni og samhæfingarfulltrúa frá sveitarfélaginu. Beiðnir voru sendar á ABUP sem er hið norska BUGL og HABU sem er hin norska greiningarstöð og það liðu ekki margar vikur þar til við fengum innköllun þangað og okkur gefnir tímar og plön til að koma þessu í gegn.
Á meðan á þessu öllu stóð, var Ingimar í 10. bekk að undirbúa sig undir að fara í framhaldsskóla, vandinn lá aðallega í því að hann hefur áhuga á svo mörgum hlutum. Hann langaði að læra allt. Mig langaði að hann fengi að læra allt og loksins var tækifærið að renna upp.
Við höfðum fengið bréf snemma í vor þess efnis að hann væri samþykktur í Kvadraturen skólann í Kristiansand. Þá tóku við fleiri fundir og Ingimar fór í nokkrar heimsóknir í Kvadraturen til að sjá hvað væri verið að gera þarna og hitta kennarana. Hann fékk kennslu í strætisvagna notkun og íslenski kennarinn hans fór með honum nokkrar ferðir alla leið inn í Kristiansand, þar sem tímaskyn hans og þekking á peningum er ekki upp á marga fiska.
Á fundunum sem við foreldrarnir og Ingimar sóttum í Kvadraturen skólanum, var komist að niðurstöðu með nám handa honum. Arbeidsliv er það einfaldlega kallað og er námið sniðið eftir þörfum, áhuga og getu hvers og eins einstaklings en restinni hent út. Mér þótti einstaklega gaman að sjá hve alvarlega Norðmenn taka framhaldsnámi barna sinna og hve allt skólakerfið hér er bjóðandi og öllum vel fagnað. Allir fá nám við sitt hæfi.
Ingimar minn lauk 10. bekk, læs og skrifandi, við mikla athöfn í skólanum einn fagran dag í júní. Og mamman stóð aftast í salnum og hágrét af gleði og stolti sem var að rífa hana í sundur.
Þarna var litli strákurinn hennar, sem flestir höfðu afskrifað og haft áhyggjur af, að útskrifast í sparifötum og lakkskóm…. og hún vissi að það yrði allt í fína lagi með hann.