Þessi er svo sjúklega ævintýraleg grillpylsa að þegar þú hefur einu sinni prófað að grilla ostafyllta hakkpylsuna, verður einfaldlega ekki aftur snúið. Auðvitað er best að grilla dýrðina á vel heitu útigrilli, en ef því verður ekki komið við sökum veðurs – skaltu fyrir alla muni draga fram grillsteikarpönnuna og prófa innandyra! Þetta GETUR ekki klikkað!
U P P S K R I F T:
900 grömm nautahakk
1 vænt stykki af osti að eigin vali
Salt og pipar
Pylsubrauð
Tómat / Sinnep / Barbique sósa – meðlæti að eigin vali
L E I Ð B E I NI N G A R:
Byrjið á því að skera vænt ostastykkið í hæfilega bita (ílanga). Kryddið nautahakkið með salti og pipar (eða kryddblöndu að eigin vali) og deilið nautahakkinu svo upp í 5 – 6 lófastóra hluta. Fletjið út alla hlutana eftir endilöngu og leggið ilangt ostastykkið ofan á nautahakkið – nær öðrum endanum. Rúllið upp nautahakkinu og tryggið að hakkrúllan þekji ostastöngina í miðjunni jafnt á allar hliðar.
Grillið nú hakkrúlluna á vel heitu útigrilli (eða grillpönnu innandyra) í 6 – 10 mínútur. Snúið hakkrúllunni jafnt og þétt ( 3 til 4 sinnum) til að tryggja að þú hafir grillað hakkið jafnt allan hringinn. Hakk-ostapylsan ætti að vera tilbúin þegar osturinn er farinn að leka út um rúlluna og nautahakkið er orðið fallega brúnað á alla kanta.
Berið fram í pylsubrauði með meðlæti að eigin vali (tómatsósu / sinnep / barbequesósu o.sv.frv.) – njótið vel!
Cheese-Stuffed Burger Dog
Posted by Tasty on Thursday, August 27, 2015