Instagram paródía sem sýnir sjálfa Barbie sötra Latte, klífa fjöll og sveipa um sig rándýru kasmírteppi hefur slegið algerlega í gegn að undanförnu. Svo miklal athygli hefur @socialitebarbie vakið á Instagram að Vogue hefur fjallað um ævintýri hennar, WIRED lofar paródíuna í hástert og Cosmo hefur drepið á vitleysunni.
Ekki að ástæðulausu, því Barbie virðist ekki bara fullkomin í útliti, heldur neglir eitt frægasta leikfang heims allar helstu tegundir sjálfsmynda og grobbaðstæður sem hægt er að hugsa sér gegnum samskiptamiðilinn.
Hún ber heitið Sociality Barbie á Instagram og gerir háðulegt grín að öllum þeim lífsstílsbloggurum sem birta reglulega fullkomnar lífsstílsmyndir af sér og gott betur en það, paródían nær yfir allar hugsanlegar stereótýpur í einum snilldarlegum Instagram aðgangi.
Allt frá kennimerkjum (#soblessed) til litasamsetninga (þoka, græn engi og fagurblár himinn) – köflóttar hipsteraskyrtur, réttu gleraugun og kaffimyndir. Dinglandi fætur við árbakka, berfætt Barbie á göngu í flæðarmálinu og nýhogginn viður. Lífsstíll Barbie er áreynslulaus með öllu, afskaplega lífrænn og þakklæti Barbie vomar yfir öllu eins og Instagram slikja …
Allir sem komið hafa nærri samskiptamiðlum um ævina eiga að minnsta kosti einn svona vin eða fylgja einhverjum sem er ÓTRÚLEGA blessed. Allan liðlangan daginn. Barbie er dásamleg paródía sem minnir okkur öll á – með áreynslulausum fullkomleikanum – hversu mikil blekking netið í raun er. Lifi Barbie <3
SocialityBarbie@Instagram