Tískuvikan í New York hefst með glæsibrag í nótt; en fyrsta sýningin, sem kynnir vor- og sumarlínur hátískunnar á komandi ári, verður haldin klukkan 5:00 að morgni ef taka á mið af íslenskum staðartíma, þar sem Reykjavík er einum fjórum klukkustundum á undan New York.
Beina útsendingu frá tískuvikunni í New York má m.a. sjá á vefnum Fashion Week þar sem vor- og sumartískan árið 2016 verður frumsýnd, en nýliðinn Alandra Alonso opnar tískuvikuna með vor- og sumarlínu Á Moi. Þetta mun í annað sinn sem tískulína Á Moi er kynnt á tískuvikunni en í viðtali við tískuritið FASHIONISTA sagði þessi ungi og framsækni hönnuður fyrr á þessu ári, að gífurlega kostnaðarsamt væri fyrir unga og upprennandi fatahönnuði að taka þátt. Þannig gæti þáttökugjald hlaupið á tugum þúsunda dollara, utan þess sem umboðsskriftstofur eru oft óvægnar í viðskiptum við lítt þekkt tískuhús og ekki hlaupið að því að fá þekktar fyrirsætur til að ganga pallana.
Hér má sjá brot úr haust- og vetrarlínu 2015 tískuhússins Á Moi sem kynnt var í febrúar:
Dagskrá má einnig skoða á vef Fashion Week, en til að bæta um betur hefur hátískubiblían Vogue opnað vefinn Vogue Runway þar sem ekki einungis má skoða ljósmyndir beint af pöllum tískuvikunnar, heldur einnig renna yfir allar tískuvikur liðinna ára og helstu viðburði.
Skjáskot af Vogue Runway – Smelltu til að skoða:
Tískuvikan í New York stendur yfir til 17 september nk. og hefst að nýju í London þann 18 september, en breska tískuvikan stendur yfir til 22 september. Þá hefst tískuvika í Mílanó þann 23 september og stendur yfir til 29 september, en tískuvikunni lýkur með pompi og prakt í París; þar sem fyrsti dagur tískuvikunnar rennur upp 30 september og lýkur 7 október nk. en þá hafa allir fremstu hátískuhönnuðir heims lagt línur fyrir vor- og sumarmánuði 2016.