Cindy Crawford hefur loks rætt út um ljósmyndina sem gekk stórum af ofurmódelinu á netinu í febrúar á þessu ári, en í einlægu viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Elle Canada veltir hún meðal annars þeirri spurningu upp hvers vegna lélegar og jafnvel falsaðar ljósmyndir af henni laði fram jákvæð viðbrögð og vellíðan hjá almenningi.
Það var fréttaþulur á bresku sjónvarpsstöðinni ITV News sem upphaflega deildi ljósmyndinni á Twitter og sagði að hér væri um raunverulega og óunna ljósmynd af Cindy Crawford að ræða. Ljósmyndin var sögð eiga uppruna sinn að rekja til eldri myndaseríu sem tekin var fyrir Marie Claire og sló algerlega í gegn á netinu.
Ljósmyndin fór stórum í fréttamiðlum en reyndist síðar vera fölsuð:
„Ég vissi sem var og fannst fréttaþulurinn ekki skila vandaðri vinnu því hún lét eins og ljósmyndin, sem var fölsuð, væri stórkostleg. Hún lagði enga rannsóknarvinnu á sig til þess að ganga úr skugga um hvort þetta væri alvöru ljósmynd eða ekki. Af hverju ætti öðru fólki að líða vel yfir því að sjá lélega ljósmynd af mér? Ég skildi þetta bara ekki; ég var alveg ringluð. Ég upplifði mikla innri togstreitu.“
Hér má sjá forsíðu Marie Claire en átt var við umrædda mynd um 18 mánuðum síðar:
„Viðtalið [í Marie Claire innsk. blm] hafði birst einu og hálfu ári áður og umrædd ljósmynd af mér var prufa. Ég þekki minn eigin líkama og ég er langt frá því að vera fullkomin vexti og kannski sé ég sjálfa mig ekki í réttu ljósi; kannski er ég sannfærð um að ég líti betur út en ég geri í raun og veru. Flestar konur eru alltof harðar við sjálfa sig að mínu mati. Okkur finnst við alltaf líta verr út en við gerum í raun og veru. Svo ég geri ráð fyrir að ég hafi fallið fyrir því andstyggðarbragði sjálf, jafnvel þó ljósmyndin sem fór á flug hafi ekki endurspeglað það sem ég sá þegar ég leit í spegil – ekki einu sinni í alverstu lýsingunni í sjálfu búningherberginu.“
En þó ljósmyndin væri fölsuð og búið væri að eiga við hana með myndvinnslu til að ýkja slitför á maga Cindy, fór fölsunin sigurför á netinu og konur víða um heim dásömuðu upplogið hugrekki Cindy.
Skot úr umræddri myndaseríu sem birtist í Marie Claire:
Ljósmyndarinn sem tók myndina fyrir Marie Claire steig síðar fram og harðneitaði því að um raunverulega ljósmynd væri að ræða, að myndinni hefði verið stolið og að átt hefði verið við hana af óprúttnum sem hefðu í kjölfarið deilt henni á netinu í óþökk hlutaðeigandi – allt til að sýna Cindy í öðru ljósi.
„Við [fagteymi Cindy innsk. blm] ræddum við ljósmyndarann sem komst í verulegt uppnám, því það var ekki hann sem deildi ljósmyndinni sjálfur. Hann sagði við mig – Hey, Cindy, ég skal bara senda þér upprunalegu ljósmyndina, en þá sérðu að þessar myndir eru bara ekkert líkar. Það er mjög augljóst að einhver hefur átt við myndina til að ýkja upplogin líkamslýti. Myndinni var stolið, já og um skemmdarverk var að ræða, en viðbrögðin urðu hins vegar svo jákvæð að við vorum orðlaus.“
Þrátt fyrir að myndafölsunin hafi sært Cindy sjálfa djúpt og ekki hvað síst hvernig hafði verið átt við myndina sem var stolið úr möppu ljósmyndara, segist hún engu að síður gleðjast yfir þeim jákvæðu áhrifum sem atvikaröðin virtist hafa á viðhorf og skoðanir ófárra kvenna:
„Stundum hafa þær glansmyndir sem konur bera augum í tískuritum, neikvæð og niðurrífandi áhrif og það jafnvel þó aldrei hafi verið ætlunin að gera lítið úr neinum. Þess vegna var falsaða ljósmyndin af mér eins og gára á spegilsléttum fleti. Í dag skiptir litlu máli hvort ljósmyndin var raunveruleg eða ekki, þó vissulega skipti það sjálfa mig máli.“
„Fölsunin setti mig í erfiða stöðu; ég gat ekki stigið fram og talað á móti ljósmyndinni því þá hefði ég verið að gera lítið úr öllum þeim sem upplifðu létti og vellíðan, en ég gat heldur ekki hrósað ljósmyndinni og hælt þessar afhjúpun í hástert – því ljósmyndin var ekki raunveruleg. Jafnvel þó ljósmyndin hefði verið raunveruleg, þá hefði ég ekki kært mig um að birta hana opinberlega. Mér leið eins og ég hefði verið misnotuð og ég var sett í mjög erfiða stöðu, svo ég ákvað að halda mér bara saman og segja ekki eitt aukatekið orð.“
Viðtalið við Cindy Crawford í nýjasta tölublaði Elle Canada má lesa HÉR