Coco Chanel lét einhverju sinni þau orð falla að þó tískan tæki stöðugum breytingum væri sannur stíll með öllu tímalaus. Það eru orð að sönnu, en þrátt fyrir að glansritin prýði iðulega ungar stúlkur sem geisla af æskuljóma, er raunveruleg fegurð og glæsileiki kvenna ekki bundinn við aldur og æviskeið heldur innri ljóma.
Þeir sem halda því fram að fegurð kvenna fölni um fertugt ættu því að hugsa sig tvisvar um, því hvorki reisn, þokki né glæsileiki er bundinn við yngri æviskeiðin heldur fylgir konu frá fæðingu til grafar. Sophia Loren sagði einmitt sjálf að kynþokki yrði hvorki lærður né áunninn; að kona væri annað hvort fædd fögur – eður ei. Þar hafði ítalska spagettídrottningin að ákveðnu marki rétt fyrir sér, þó hver einasta kona búi yfir meðfæddri fegurð sem henni einni er fært að laða fram. Því eru glæsilegar konurnar sem hér má sjá að neðan og koma fyrir í skemmtilegri samantekt Mic að öllum líkindum sammála.
Hér fara fáeinar og afar glæstar eldri konur sem hafa ekki einungis sigrast á þeim gamalgrónu mýtum að konum sé hollara að hafa sig hægar þegar aldurinn hvolfist yfir; heldur bera þær árin með slíkri reisn að þær eru löngu orðnar öðrum fyrirmynd – að ekki sé minnst á hversu smekklega þær klæðast djörfum litasamsetningum án þess að hika!
#1 – Beatrix Ost
Beatrix Ost fæddist í Stuttgart í Þýskalandi árið 1940 og er því orðin 75 ára gömul. Hún er listakona; rithöfundur, málari, hönnuður og skúlptúrlistakona og er rómuð fyrir litríka og framúrskarandi smekklega túrbana, sem hún ber iðulega við opinber tækifæri.
Beatrix hefur einnig vakið athygli fyrir djarft litaval í klæðaburði og smekklegt val á skartgripum – sem sýnir svo um munar að það er aldrei hægt að vera of glæsileg.
Lífsmottó: Að elska er fegursta og eftirsóknarverðasta tilfinningin. Lifðu lífi þínu eins og það væri listaverk.
#2 – Patricia Field
Patricia Field er fædd á Manhattan, New York í febrúarmánuði árið 1941 og er því 74 ára gömul. Hún er búningahönnuður og er þekktust fyrir að hafa skapað persónulegan stíl aðalleikvennana fjögurra í Sex and the City þáttaröðunum. Það var Patricia sem ákvað að senda Carrie út á miðja götu í tjullpilsi, sem síðar átti eftir að einkenna innspil þáttana, sem slógu gjörsamlega í gegn.
Patricia er óhrædd við litasamsetningar og er djörf í klæðaburði, hún er þannig alltaf með eldrautt, litað hár og skærrauðan varalit – hvert sem hún fer, enn þann dag í dag.
Lífsmottó: Í viðtali við Hollywood Reporter sagðist Patricia eitt sinn hafa spurt Rosie, 22 ára gamla aðstoðarkonu sína hvað þýddi eiginlega að vera hipster. „Því orðið hefur aðra merkingu fyrir fólki á mínum aldri. Á mínum sokkabandsárum merkti „hipster” að vera bóhem-týpan. Ég var til dæmis bóhem á mínum yngri árum. Aðstoðarkona mín svaraði um hæl og sagði – Þú tekur til fötin þín, þú raðar þeim saman og þú tekur þig vel út í smekklegri samsetningunni. Þú ferð út í daginn og þér líður eins og þú lítir vel út. Það er að vera hipster. – svo ég sagði bara, Takk Rosie!“
#4 – Vivienne Westwood
Vivienne Westwood er fædd í Bretlandi á því herrans ári 1941 og er því orðin 74 ára gömul.
Hún er afar virtur fatahönnuður sem sló algerlega í gegn upp úr 1970 og varð eftirsóknarverð innan pönksenunnar i Bretlandi. Sjálf er Vivienne skoðanasterk og satíran skín gegnum hönnun hennar, en hún hefur ávallt forðast miðjumoð og meðalmennsku sem endurspeglast í ögrandi fatalínum hennar gegnum tíðina.
Lífsmottó: Vivienne lét einhveru sinni hafa eftir sér í viðtali að nútíminn væri svo sneisafullur af ytra áreiti að ungt fólk ætti stöðugt erfiðara með temja sér sjálfsaga … „Því við þurfum öll á einveru að halda öðru hverju til að átta okkur á eðli hlutanna.”
#5 – Zandra Rhodes
Zandra Rhodes er fædd í Bretlandi árið 1940 og því orðin 75 ára gömul, en hún er þekktur fatahönnuður og hafa ekki ómerkari konur en sjálf Díana Bretaprinsessa og ofurfyrisætan Kate Moss klæðst hönnun hennar.
Hún er auðþekkjanleg á axlarsíðu, skærbleiku hárinu, bláum augnskugganum og glæstum ferlinum sem spannar heila fimm áratugi en Zandra er enn í fullu fjöri og setti þannig Tísku- og textílsafnið í London á laggirnar árið 2003.
Lífsmottó: Zandra er blátt áfram og segist ekki geta brugðið sér í líki annarra. „Ef ég yrði til dæmis gráhærð, þá væri ég bara ekki ég sjálf. Þegar ég var yngri var ég oft með grænt hár, svo var ég með blátt hrokkið hár með krullur teiknaðar á andlitið. Enda kom einhver upp að mér og sagði – „Ef þú lítur svona út sjálf, hlýtur efnishönnunin þín að vera dásamleg.”
#6 – Lauren Hutton
Lauren Hutton er fædd í Bandarikjunum árið 1943 og er því 71 árs gömul. Hún er þekkt fyrirsæta og leikkona og hefur meðal annars prýtt forsíðu Vogue í ein 28 skipti.
Lauren hefur þénað meira á ferli sínum en nokkur önnur fyrirsæta, án þess að taka sér nokkru sinni hlé frá störfum. Hutton er þekkt fyrir látlausan stíl sinn og klassískar, tímalausar samsetningar. Hún er iðulega klædd buxnadrakt og blazerjakka í jarðlitum.
Lífsmottó: Fólk segir að þú fæðist annað hvort með stíl og glæsileika eða ekki. Ég segi að þetta sé bull. Líttu bara á sjálfa þig í spegli. Vel og lengi. Stíll er það sem fer þér vel og klæðir þig. Ýttu hugmyndum annarra um hver þú ættir að vera til hliðar og taktu þá ákvörðun algerlega sjálf.
#7 – Linda Rodin
Linda Rodin er bandarísk fyrirsæta, hönnuður og frumkvöðull og er 67 ára að aldri.
Hún er þrautreyndur stílisti og fyrirsæta, sem er þekktust fyrir rauðan varalitinn, dökk sólgleraugun og svo kjölturakkann Winky, sem fylgir henni hvert fótmál.
Lífsmottó: Ég er á þeirri skoðun að konur upplifi meira frelsi og sjálfstæði eftir því sem árin færast yfir. Með árunum lærist manni að vera heiðarlegri og opnari gagnvart sjálfum sér og öðrum. En auðvitað eru allir að glíma við einhverja komplexa og óöryggi, – bara í annarri mynd en áður. Það hverfur aldrei. En hins vegar kemst maður á einhvern stað þar sem maður segir bara – OK, þetta er allt í lagi. Þegar öllu er á botninn hvolft er enginn fullkominn og allir eru einfaldlega að gera sitt besta.
#8 – Iris Apfel
Iris Apfel fæddist í New York árið 1921 og er því orðin 94 ára gömul. Hún er frumkvöðull og þrautreynd viðskiptakona, innanhússhönnuður og tískufyrirmynd margra.
Apfel er óhrædd við að tengja andstæða liti saman og er þekktust fyrir ástríðu sýna á líflegum mynstrum og sólgleraugum í yfirstærð. Hún ber hrokkið, silfurgrátt hárið með reisn við hringlaga sólgleraugun sem hafa orðið hennar aðalsmerki en í raun er engin leið að segja hvaða samsetningar hún velur í raun og því kemur Apfel stöðugt skemmtilega á óvart.
Lífsmottó: Ef ég þarf að mæta einhvers staðar, eyði ég sennilega meiri tíma í að velja fatnaðinn áður en ég legg af stað en tímanum sjálfum sem ég eyði á staðnum. Stundum gref ég og leita í fataskápnum mínum og gramsa þar til ég finn ásættanlegan fatnað. Og ef ég er að versla fatnað … þá hlusta á á efnið í flíkinni sjálfri. Ég tengist flíkinni eða ekki. Þetta hefur ekkert með verðlagið að gera. Þetta er tilfinningaleg vissa; ég verð að vera alveg viss, finna vissuna í hjartanu. Ég get ekki útskýrt þetta öðruvísi.