Sælar elskurnar! Frúin féll í stafi yfir þessum dásamlegu krukkulokum! Enda alveg að drukkna í servíettum heima fyrir og nú er sultuvertíðin runnin upp. Svo það var ekki eftir neinu að bíða, upp úr skúffu fór föndurlímið, marglitar servíetturnar fóru beint á eldhúsborðið og svo hefur Frúin bara dundað við þetta um helgina! Að föndra krukkulok!
Hugsið ykkur bara hvað sultugerðin getur verið skemmtileg, auðvitað langar fólki að gefa gestum og gangandi eins og eina fallega krukku og þá er nú ekki úr vegi að persónugera lokin. Gasalega sætt.
Nú, reyndar verður að fara varlega að servíettuskreyttum krukkulokunum, dúllurnar mínar. Þau mega alls ekki fara í uppþvottavél og fara verður vel með krúttin þegar skrúfað er af krukkunni.
En hugsið ykkur bara hvað svona dúllerí fer vel uppi í hillu. Þar sem heimalöguð sultan trónir auðvitað. Dásamleg eldhússkraut!
Allt sem til þarf er ágætt föndurlím og fíngerður pensill. Sumt lím er vatnsleysanlegt, best heldur Frúin að sé að notast við slíkt. Svo límið verði ekki jafn þykkt áferðar og servíettan leggist betur. En auðvitað eruð þið sérfræðingarnir, Frúin er bara svona að gauka að ykkur hugmynd og hvetja ykkur áfram í eldhússföndrinu.
En best er að taka servíettuna í tvennt og nota bara efra lagið. Annars verður fallega krukkulokið leiðinlega klossað ásýndar. En þetta kunna auðvitað allir servíettusérfræðingar, svo hvað er Frúin að segja …
Dúmpið penslinum varlega yfir yfirborðið þegar límið er borið á og gætið ykkar á því að fara vel yfir allar loftbólur, svo engar glufur verði eftir. Til að servíettan fari sem best á krukkulokinu er svo allra best að klippa pappírinn í ræmur (sjá skýringarmynd) og læða ræmunum einni af öðru inn á neðanvert krukkulokið.