KVENNABLAÐIÐ

Sólin sem brosir í sandkassanum

Ég segi sjálfri mér iðulega að klukkan sé orðin of margt til að skrifa. Ég muni segja söguna á morgun. Reyni að banda hnotubrúnum augunum úr undirvitundinni, brosinu sem blasti við mér þegar ég gekk inn á leikskólann þennan tiltekna dag.

Reyni að svæfa slitrurnar sem sitja eftir í huganum; hnarreista konuna með hnotubrúnu augun sem rétti brosmild út hendurnar þennan tiltekna dag og tók utan um drenginn minn, sem þá hafði átt heima í hverfinu í um það bil ár og var iðulega til vandræða á deildinni vegna rassakasta.

Hvernig átti ég að segja konunni að ég hefði fáeinum mínútum fyrr lesið yfir fréttir? Fræðst um litlu börnin sem sofnuðu kvöldinu áður og voru myrt í svefni? Voru þau virkilega nær 1500 talsins? Hvað kom til að konan mætti til vinnu og af hverju þurftu öll börnin að deyja þessa tilteknu nótt? Hvers vegna brestur mig minni, af hverju vilja orðin ekki koma? Því hef ég aldrei talað um þetta áður? Hvar eru rithöfundagenin nú? Hvernig á ég að segja frá því á prenti að hún vinkona mín, sem er ættuð frá Sýrlandi og hafði verið búsett í Osló í ein 25 ár, konan sem tók utan um drenginn minn sem ætlaði alla vitlausa að æra með rassaköstum í daglegum venjum, hafði orðið vitni að þjóðarmorði skömmu áður en hún mætti til vinnu á leikskóla þennan tiltekna dag?

Ég reyni stundum að stynja orðunum upp. „En manstu eftir öllum börnunum sem dóu í Sýrlandi?” segi ég þá feimnislega í tali við einhverja vinkonuna. Hnotubrún augu konunnar eru brennd í minni mitt, sýrlensku sólarinnar sem rétti brosmild út hendurnar eftir barninu mínu sem rassakastaðist inn á norskan leikskóla þennan daginn, óhagganleg og staðföst.

„Eiturefnaárásunum?” held ég fálmandi áfram. „Það var kona að vinna á leikskólanum hans Galdurs sem er frá Sýrlandi. Hún tók á móti barninu mínu þennan sama dag. Ég hafði einmitt opnað vefsíðu Reuters þegar ég gekk fram í eldhús og fékk mér fyrsta kaffibollann. Og þar blasti fréttin við mér. Að öll börnin hefðu verið myrt þessa nóttina. Að ekkert þeirra hefði vaknað upp aftur. Þeir hleyptu gasinu af stað þegar fólkið gekk til hvílu þetta kvöldið. Ætlunin var að drepa öll börnin. Ég held að tæplega 1500 einstaklingar hafi látist, þar af tæplega 470 börn, allt meðan við sváfum.”

Mig rekur alltaf í vörðurnar þegar upp fyrir mér rennur að ekki allir muna. Aðrir taka undir orðin og jánka. Umræðan er óþægileg. Ég skauta yfirleitt hjá framhaldinu þegar hingað er komið sögu. Ég get ekki borið allar minningar mínar á torg yfir kaffibolla. Ekki þegar ætlunin er að hafa gaman.

Ég hef aldrei minnst á hnotubrúnu augun hennar fyrr. Aldrei sagt frá skelfingunni sem hríslaðist um mig og þeirri löngun að láta allt um lönd og leið. Ég stend ekki í þessu stríði. Ég hái aðrar baráttur. Rétti henni barnið. Horfi á hana brosa. Hún er beinni í baki en í gær. Sagði mér um daginn að hún hefði búið í Osló í ein 25 ár, en ég kann ekki við að spyrja hvers vegna hún fluttist.

Skömmu áður reyndi hún að gefa mér brauð. Tók mig afsíðis þegar ég hafði gleymt nestisboxi barnsins heima. Sagði að þetta stríddi á móti reglum leikskólans. En að við yrðum að borða. Augun hennar voru svo brún. Ég skammaðist mín þann daginn og sagði konunni að við ættum mat. Ég hefði bara gleymt að taka boxið með þann daginn. Ég horfi á barnið mitt í fangi konunnar sem reyndi að gefa mér brauð bak við luktar dyr á leikskólanum, þeirrar sömu sem lifði af þjóðarmorð fáeinum klukkutímum fyrr, allt vegna þess að hún var stödd í Osló og ég hugsa um öll börnin sem dóu. Gasinu sem hleypt var af og sefandi söngli ódæðismanna sem allir í kór hafa sannfært samverkafólk sitt um að ekkert barnanna hafi liðið kvalir.

Ég græt þegar ég geng í burtu frá leikskólanum og ég brotna niður þegar út í bíl er komið. Ég er frávita af sorg í vinnunni þennan daginn og ég er andlega örmagna þegar ég geng upp litla stíginn sem liggur að rauða leikskólanum síðla þennan sama dag. Ég þurrka tárin rétt áður en að hliðinu er komið og ég horfi á sýrlensku sólina, sem stendur brosmild í sandkassanum með logagylltan hijab á höfðinu og heldur utan um litla barnið mitt, sem ætlar allt um koll að keyra á leikskólanum. Ég hugsa um öll litlu börnin sem létu lífið þá nóttina og svo heyri ég  orðið MAMMA. Mig langar að spyrja sýrlensku sólina með hnotubrúnu augun hvers vegna við getum ekki grátið saman. En ég kem ekki upp einu orði. Hún brosir við mér. Ég kemst ekki að henni. Hún er hnarreist og gerð úr stáli. Ég er bara móðir. Umræðan á ekki við.  

Hvernig á ég að tala við konuna? Hefði verið við hæfi að segja orðin: „Var það fjölskylda þín sem var tekin af lífi í nótt, vinkona?” og bæta jafnvel orðunum: „Nei, það var nú gott að þú þekktir engan …” við vandræðalegt fálmið? Hvað er við hæfi að segja þegar eftirlifendur þjóðarmorðs verða á vegi mínum í daglegu lífi? Barnslega einfeldnisleg sjónarmið mín hrökkva skammt. Mig skortir orðaforða. Pólitíska þekkingu og viðeigandi nálgun á viðfangsefninu. Ég er einfaldlega móðir sem á þessu tímaskeiði átti barn sem gekk í leikskóla, þar sem sýrlensku sólina bar við sjóndeildarhring hvern einasta dag.

Ég skynjaði tómleikann og lánið, þar sem sú sýrlenska horfði brosmild með hnotubrúnum augum yfir hláturmilt barnahafið á leikskólanum. Samtímis hugsaði ég um öll börnin sem hún syrgði. Sonur minn ber enn virðingu fyrir þeirri sýrlensku, sem var sem hafið og himininn og hvolfdist yfir allt, þó samtímis væri hún eins og kletturinn sem reis upp úr sora meðalmennskunnar. Óhagganleg og alltaf með útbreiddan faðm við hliðið.

Ég horfi á hana dansa í sandkassanum; brosa hvað fegurst er blæða sárin. Sýrlensku sólina með logagylltan hijabinn sem ber við himinn og ég veit að hún gengur á glóandi kolum. Hún er mállausa hafmeyjan hans H.C. Andersen sem skar úr sér tunguna í skiptum fyrir marmarahvíta fætur sem veittu henni frelsi til að freista ástarinnar í ókunnri veröld. Heimkynnum hennar hefur nær verið eytt að fullu. Mig langar að biðja hana að setjast hjá mér og gráta. En ég kem ekki upp orði. Ég er bara móðir með barn á leikskólanum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!