KVENNABLAÐIÐ

Jákvæð samskipti í lok vinnudagsins: Rós, þyrnir, brum

Eftir langan og strangan vinnudag getur verið afar freistandi að taka erfiðleika dagsins með heim og deila þeim með makanum. Eftir sérlega slæma daga getur listinn verið ansi langur og því neikvæðir straumar óumflýjanlegir.

Stanslaust tuð yfir yfirmanninum sem er svo ósanngjarn eða kynningunni sem fékk lítinn hljómgrunn á fundinum er ekki beinlínis uppskrift af kósý kvöldi.

Makinn vill að sjálsögðu hlusta og sýna skilning á vandanum, en allir hafa sín þolmörk. Ef þetta er eitthvað sem þú tengir við og vilt breyta til betri vegar gæti rós-þyrnir-brum aðferðin verið eitthvað fyrir þig.

Hún virkar þannig að í lok vinnudagsins þegar þú hittir makann þinn þá sleppið þið þessari hefðbundnu: „Hvernig var dagurinn þinn?“ spurningu og finnið rósina, þyrninn og brumið ykkar yfir daginn.

Rósin er það besta sem kom fyrir þig í dag. Það sem gladdi þig mest eða var jákvæðast. Rósin getur verið eitthvað mjög einfalt, eins og: „Nýja uppskriftin af chiagrautnum sem ég prófaði í morgun var sú besta hingað til“, eða „Ég fékk hrós frá samstarfsmanni mínum“. Rósin getur líka verið eitthvað stærra t.d. „Ég fékk stöðuhækkun í dag“ eða „Ég pantaði utanlandsferðina sem okkur er búið að langa svo lengi í“.

Þyrnirinn er það atriði sem var leiðinlegast eða erfiðast við daginn. Það getur verið eitthvað jafn lítið og að uppáhalds kaffitegundin í sjálfsalanum var búin eða jafn stórt og að klúðra mikilvægu verkefni. Eftir því hvers eðlis þyrnirinn er getur makinn annað hvort sýnt samúð eða hjálpað til við að leita lausnar á vandanum. En það er mikilvægt að greina vandann og halda síðan áfram. Það þýðir ekkert að kjökra yfir niðurhelltri mjólk, áfram með smjörið! (Eru ekki einhverjar fleiri mjólkurvörur sem ég get blandað í þetta?)

Brumið er síðan það sem er enn óútsprungið, eitthvað sem maður er spenntur fyrir. Brumið getur verið eitthvað í líkingu við: „Ég hlakka svo til að elda góðan mat með vinum okkar í kvöld“ eða „Ég get ekki beðið eftir því að skríða upp í með krimmann sem ég var að byrja á og lofar góðu“. Brumið þarf alls ekki að vera eitthvað stórt, bara eitthvað smotterí sem er hægt að láta sér hlakka til.

Með þessum hætti er hægt að eiga jákvæð samskipti við makann í lok vinnudagsins. Auðvitað geta þessir punktar skapað meiri umræðu og það er allt í lagi.

Aðalatriðið er að með þessari yfirferð færðu einn skammt af þakklæti (rósina), einn skammt af samúð (þyrninn) og einn skammt af tilhlökkun (brumið).

Þetta hljómar kannski stíft og of skipulagt, en það er lúmskt gaman að hugsa útí þetta yfir daginn og reyna að finna sína rós og sitt brum. Þannig verður þyrnirinn ekki eins beittur og stingur ekki eins marga.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!