Sá beikonlagaði er ekki fyrir þá veiklyndu. Hér er á ferð kornviskíkokteill eins og þeir gerast bestir í reyklögðum heimi vindlareykingamanna og viskíunnenda, en kokteillinn sjálfur á uppruna sinn að rekja til viskíbúllu í New York sem komin er til ára sinna. Enda fer einungis alvöru Suðurríkja-Bourbon á borð við Jim Beam í hann þennan. Hugsið ykkur bara.
Beikonfituna þarf að veiða ofan af kornviskíinu áður en víninu er hellt í fallega karöflu. Undirbúningurinn sjálfur er þolinmæðisvinna, eða um hálfur sólarhringur. En biðin er fyllilega hverrar mínútu virði, því að sögn þeirra sem til þekkja – er beikonlagað kornviskí með ísmolum hreinasti unaður.
H r á e f n i:
700 ml vandað kornviskí (t.d. Jim Beam Bourbon / Old Virginia Bourbon)
3 – 4 sneiðar vænt beikon
Angostura bitter (fæst í ÁTVR)
Fínrifinn appelsínubörkur
Kornsýróp (Maple Syrup)
Ísmolar
B e i k o n l a g a ð – k o r n v i s k í:
#1 – Steikið beikonið og síið beikonbráðina frá:
Þurrsteikið 3 – 4 vænar sneiðar af beikoni á pönnu og fleytið bráðina af, eða því sem nemur tæpum ½ dl.af bráðinni beikonfitu.
#2 – Færið kornviskíið í vatnskönnu:
Hellið kornviskíinu (Bourbon Whiskey) í ágæta vatnskönnu sem er búin loki og hellið beikonfitunni yfir kornviskíið. Látið standa við stofuhita í u.þ.b. 8 klst. eða jafnvel yfir nótt.
#3 – Kælið og leyfið beikonbráðinni að storkna:
Látið viskíblönduna standa inni í ísskáp í u.þ.b. 1 klst. eftir umræddan lögunartíma þar til fitan storknar og rís.
#4 – Fleytið mestu fitunni af og sigtið beikonviskíblönduna:
Ágætt getur verið að notast við fíngert sigti eða jafnvel taugrisju, þegar beikonfitan er síuð frá viskíinu sjálfu og beikon-löguðu viskíinu er hellt á fallega karöflu.
Beikonlagaður kornviskíkokteill á ís með appelsínutvisti:
6 cl (tvöfaldur) beikonlagað kornviskí
1 ½ tsk kornsýróp (Maple syrup)
2 tsk Angostura bitter (fæst í ÁTVR)
Fínrifinn appelsínubörkur til skreytingar
Borið fram á ís