Jökullinn Ok í Borgarfirði (og hér fyrir ofan) var nú á dögunum svo óheppinn að missa titilinn jökull og þarf að sætta sig við að vera fjall í framtíðinni. Það hryggir Sykur að þetta sé raunin og þess vegna datt okkur í hug að kæta þetta góðlega fjall með því að finna tíu þekktar persónur sem líkjast því skuggalega mikið.
1. Ísbjörninn Knútur
Ísbjörninn Knút þekkir hvert mannsbarn. Þessi hjartaknúsari frá Berlín töfraði sig inn í hjörtu heimsbyggðarinnar þegar hann fæddist í dýragarði í desember 2006 en drukknaði í sama dýragarði rúmum fjórum árum síðar. Fjallið Ok má vera stolt af því að líkjast þessum merkilega ísbirni.
2. Morðinginn í Scream-myndunum
Þó manneskjan á bakvið grímuna í Scream-myndunum búi ekki yfir sömu hjartahlýju og jökullinn fjallið Ok, er augljóslega svipur með bráðnandi andlitum þeirra.
3. Snoopy
Örlítið langsótt, já. En það er samt eitthvað í þessu. Brian Griffin kom líka til greina, en það var enn meiri vitleysa.
4. Andlitið í Eyjafjallajökli
Ok á skyldmenni á Suðurlandi sem sést hér á radarmyndum frá 2010. Þessi stóri frændi hans telst reyndar enn vera jökull en þrátt fyrir það sést ættarsvipurinn langar leiðir.
5. Jói Beinagrind (Jack úr The Nightmare Before Christmas)
Fjallið Ok ætti að geta tengt ágætlega við Jóa beinagrind, því hann gekk sjálfur í gegnum miklar umbreytingar. Á einni nóttu breyttist hann úr hrekkjavökukonungi í mikinn jólakall, sem hafði reyndar skelfilegar afleiðingar. Dálæti þeirra beggja á vetrartímanum og þá einkum og sér í lagi snjókomu ætti einnig að tengja þá órjúfanlegum böndum.
6. Uncle Fester
Fester frændi, hárlausi krypplingurinn með baugana úr Addams-fjölskyldunni er enn einn tvífari fjallsins Oks. Fester er þeirrar náttúru að geta framleitt rafmagn og býr yfir sínu eigin segulsviði. Ok gerir það hins vegar ekki.
7. Mikki mús
Það þarf nú varla að kynna Mikka mús fyrir lesendum. Þessi einfalda komplexalausa síglaða mús svipar sérlega til fjallsins Oks sem hefur reyndar átt margfalt erfiðari og flóknari fortíð.
8. Þessi vegan mangó- og kókosís með bláberjum
3 bollar kókosmjólk
1 bolli sykur
2 mangó
2 matskeiðar limesafi
2 matskeiðar maísmjöl
3 bláber
9. Ópið eftir Munch
Það er engin furða að fjallinu Oki svipi til þessa fallega málverks eftir Norðmanninn Edvard Munch, enda kom fram í dagbókum málarans að innblásturinn að myndinni hafi hann sótt í náttúruna.
10. Olaf úr Frozen
Gleðipinninn Olaf hlaut sömu örlög og jökullinn Ok og bráðnaði.